þri 17. september 2019 14:00
Magnús Már Einarsson
Brann blæs á fréttir um Rúnar Kristins
Rúnar fagnar Íslandsmeistaratitlinum með KR í gær.
Rúnar fagnar Íslandsmeistaratitlinum með KR í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Brann hefur neitað fréttum þess efnis að félagið vilji fá Rúnar Kristinsson, þjálfara KR, til félagsins.

Heimildir Fréttablaðsins herma að forráðamenn norska úrvalseildarliðsins Brann hafi áhuga á því að ráða Rúnar sem þjálfara liðsins og hafi spurst fyrir um starfskrafta hans.

„Þetta á sér engar stoðir í raunveruleikanum. Við erum með þjálfara. Ég veit ekki hvort menn hafi ruglast á félögum í fréttunum en það er ekkert til í þessu," sagði Rune Soltvedt yfirmaður íþróttamála hjá Brann við Bergens Tidende í dag.

Brann er í 5. sæti í norsku úrvalsdeildinni en þjálfari liðsins er Lars Arne NIlsen sem hefur verið við stjórnvölinn síðan 2015.

Rúnar leiddi KR til Íslandsmeistaratitils í gær en Kristinn Kjærnested, formaður knattspyrnudeildar, reiknar ekki með öðru en að hann haldi áfram hjá félaginu.

„Það er ekkert óeðlilegt að fótboltalið hafi áhuga á frábærum þjálfara og frábærri persónu eins og Rúnar er. Við vitum ekki annað en að honum líði vel hjá okkur og vonandi verður hann hjá okkur um ókominn ár," sagði Kristinn við Fótbolta.net í dag.
Athugasemdir
banner
banner
banner