

Breiðablik er á leið í Evrópueinvígi en eins og er eru yfir tíu leikmenn sem mega ekki spila í seinni leiknum gegn dönsku meisturunum.
Breiðablik komst í vikunni áfram í Evrópubikarnum eftir öruggan sigur á serbneska liðinu Spartak Subotica í 32-liða úrslitunum.
Í dag var dregið í 16-liða úrslitin og Íslandsmeistararnir munu þar mæta dönsku meisturunum í Fortuna Hjörring.
Á morgun mætir Breiðablik liði FH í lokaleik Bestu deildarinnar og svo tekur við þriggja vikna undirbúningur fyrir leikina gegn danska liðinu.
Í dag var dregið í 16-liða úrslitin og Íslandsmeistararnir munu þar mæta dönsku meisturunum í Fortuna Hjörring.
Á morgun mætir Breiðablik liði FH í lokaleik Bestu deildarinnar og svo tekur við þriggja vikna undirbúningur fyrir leikina gegn danska liðinu.
Breiðablik er, eins og bent var á í Uppbótartímanum á dögunum, í þeirri stöðu að mjög margir leikmenn eru með samninga sem renna út 16. nóvember en það er áður en seinni leikur liðsins við danska liðið er spilaður. Meira en hálft byrjunarliðið er með lausan samning 16. nóvember. Það eru alls tólf leikmenn sem hafa spilað í sumar sem eru eins og er ekki gjaldgengar í seinni leikinn.
Fótbolti.net ræddi við formann fótboltadeildar Breiðabliks, Flosa Eiríksson, í dag.
„Við erum meira og minna í samtölum og viðræðum við allt og alla, þessa dagana. Þetta klárast bara núna á næstunni," segir Flosi.
„Við verðum að játa það að kerfið okkar gerir ekki ráð fyrir því að meistaraflokkur kvenna sé að spila svona langt inn í haustið."
Kemur til greina að semja við leikmenn til skamms tíma, jafnvel einungis í einn mánuð?
„Ég á ekki von á því, en þetta er í vinnslu og við reynum að gera þetta almennilega. Leikmenn mega ekki spila samningslausir, þá eru þeir ótryggðir. Hjá mörgum er samningurinn til 16.11 en svo geta verið ákvæði hjá sumum um framlengingar eins og gerist og gengur. Við erum að hnýta þessa enda þessa dagana, erum meðvituð um stöðuna."
En hvernig eru þjálfaramálin? Nik Chamberlain tekur við Kristianstad eftir tímabilið. Hvernig er staðan með hann og hvenær viljið þið vera búin að ráða hans arftaka?
„Nik tekur þessa tvo Evrópuleiki. Við stefnum svo á að ljúka því að ráða þjálfara í hans stað tiltölulega fljótlega, kannski næstu 5-10 dögum. Við verðum komin með þjálfara áður en leikirnir við Danina klárast."
Hafið þið heyrt í Pétri Péturs?
„Ég ætla ekkert að ræða einstök nöfn, en góð tilraun," segir Flosi og hlær.
Athugasemdir