Lærisveinar Freys Alexanderssonar í Kortrijk töpuðu öðrum deildarleiknum í röð er liðið laut í lægra haldi fyrir Royale Union SG, 3-1, í dag.
Freyr hætti með Lyngby í byrjun árs og tók við Kortrijk, sem sat þá í neðsta sæti belgísku deildarinnar.
Liðið byrjaði vel undir hans stjórn. Það vann tvo leiki og gerði tvö jafntefli en hefur nú tapað síðustu tveimur.
Royale Union gerði ágætis hluti í Evrópudeildinni en það hafnaði í 3. sæti í riðli sínum og vann meðal annars óvæntan 2-1 sigur á Liverpool í desember.
Það situr nú í toppsæti belgísku deildarinnar með 62 stig, ellefu stigum meira en Anderlecht sem er í öðru sæti, en Kortrijk er áfram á botninum með 18 stig.
Rúnar Alex Rúnarsson var á bekknum hjá FCK sem vann 3-0 sigur á Silkeborg í dönsku úrvalsdeildinni. Rúnar rifti samningi sínum við Arsenal í síðasta mánuði og gekk í raðir FCK, en hann er að berjast við pólska markvörðinn Kamil Grabara um markvarðarstöðuna.
Orri Steinn Óskarsson var ekki með FCK í dag. Skagamaðurinn Stefán Teitur Þórðarson var í byrjunarliði Silkeborg, en var skipt af velli á 83. mínútu.
FCK er á toppnum með 36 stig eins og Midtjylland, sem á leik til góða. Silkeborg er í 6. sæti með 27 stig.
Athugasemdir