mán 18. júlí 2022 13:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Rotherham
Hitinn gríðarlegur í dag - Gott að við séum ekki að spila klukkan fimm
Rauð viðvörun
Icelandair
Frá æfingu í Rotherham í gær.
Frá æfingu í Rotherham í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Glódís Perla Viggósdóttir.
Glódís Perla Viggósdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland spilar við Frakkland í dag.
Ísland spilar við Frakkland í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bresk stjórnvöld hafa gefið út rauða viðvörun út af veðri í dag og á morgun.

Er þessi „rauða" viðvörun gefin út vegna þess að búist er við gríðarlega miklum hita.

Því er spáð að hitinn geti farið upp í allt að 40 stig en ef það gerist þá er það nýtt hitamet í landinu. Það yrði í fyrsta sinn sem hitinn fer upp í 40 gráðurnar í Bretlandi.

Ísland spilar í kvöld gegn Frakklandi í Rotherham. Það er búist við því að það verði allt að 39 gráðu hiti hérna í dag. Leikurinn hefst 20:00 á breskum tíma og þá er því spáð að hitinn verði í kringum 34 gráður. Alls ekki íslenskt veður og verður örugglega erfitt fyrir leikmennina að spila í svona gríðarlegum hita.

Á fréttamannafundi í gær voru Þorsteinn Halldórsson, þjálfari landsliðsins, og Glódís Perla Viggósdóttir, varafyrirliði, spurð út í þennan mikla hita.

„Þetta er of heitt fyrir mig en ég hef svo sem meiri áhyggjur af leikmönnum. Stelpurnar þurfa að vökva sig vel, saltvatn og allt svoleiðis. Við reynum að passa upp á það eins og hægt er. Vonandi gengur það eftir og hefur ekki of mikil áhrif á þær," sagði Steini og svo var Glódís spurð út í hitann.

„Þetta hentar okkur kannski ekkert ótrúlega vel, en að sama skapi er þetta bara hitastig og þegar maður er kominn inn í leikinn og adrenalínið er á fullu þá er þetta ekkert eitthvað sem maður er að pæla í. Þetta er bara eins og Steini var að segja með undirbúninginn, að maður sé búinn að vökva sig vel og passa að maður sé eins klár og hægt er fyrir þetta. Svo er þetta alveg jafnheitt fyrir alla úti á vellinum."

Eru með hausinn til að gera hvað sem er
Miðjumennirnir Dagný Brynjarsdóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir voru til viðtals á laugardag þar sem þær voru báðar spurðar út í hitann.

„Það er búið að vera heitt en verður ótrúlega heitt á leikdegi. Ég held að þetta snúist um að vera eins lítið og hægt er í sólinni og drekka mikið af vökva, söltum og Gatorade og öllu þessu dæmi. Við erum búnar að spila hina tvo leikina klukkan fimm, og það gott að við spilum þennan klukkan átta. Þá kannski verður aðeins búið að kólna þó það verði ekki mikið en kannski aðeins minni sól og svona. Það hlýtur að vera vatnspása - ég ætla rétt að vona það," sagði Dagný en það verða vatnspásur á meðan leik stendur.

Sá leikmaður í íslenska hópnum sem þekkir það best að spila í hita er líklega Gunnhildur en hún leikur með Orlando Pride í Bandaríkjunum.

„Ég er mjög vön þessu, spila í svona hita í hverri viku í Orlando. Það er alltaf erfitt að spila í hita, það verður mjög heitt en ég veit að hver einasta manneskja í okkar liði er með hausinn til að gera hvað sem er, þannig að ég hef engar áhyggjur af okkur. Vonandi verður bara vatnspása svo leikmenn geti fengið sér að drekka og leikurinn verður skemmtilegri fyrir vikið. Við getum ekki breytt hitastiginu og Frakkar eru náttúrulega að spila í sama hita. Bæði lið eru að fara lenda í þessu en ég hef engar áhyggjur af okkar leikmönnum."

Leikurinn í kvöld hefst klukkan 19:00 að íslenskum tíma. Ísland er með örlögin í sínum höndum og fer áfram með sigri í dag.
Áttaði sig á því hvers vegna hún var pirraðari en vanalega
Gunnhildur um fyrirliðaskiptin: Hefurðu séð Glódísi?
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner