Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   fim 19. september 2019 10:00
Elvar Geir Magnússon
Alf-Inge Håland: Yrði flott ef hann færi til Man Utd
Mynd: Getty Images
Pabbi norska sóknarmannsins Erling Braut Håland, Alf-Inge, segir að það yrði flott ef sonur sinn myndi fara til Manchester United.

Hinn 19 ára Håland skoraði þrennu í 6-2 stórsigri RB Salzburg á Genk í Meistaradeildinni á þriðjudag, í sínum fyrsta Meistaradeildarleik.

Manchester United er sagt hafa áhuga á stráknum og að njósnari frá félaginu hafi verið í stúkunni á þriðjudag.

Alf-Inge Håland lék með tveimur af helstu erkifjendum Manchester United; Leeds og Manchester City. Hann sagði eitt sinn að hann þoldi ekki United og rimmur hans og Roy Keane eru frægar.

Í Manchester slag þá meiddist Alf-Inge illa á hné eftir Keane sem fékk að líta rauða spjaldið. Meiðslin voru talin hafa eyðilagt feril Norðmannsins sem lék aldrei heilan leik aftur.

Þrátt fyrir þetta allt saman hefur Alf-Inge ekkert á móti því að sonur sinn sé orðaður við Manchester United.

„Það yrði flott ef hann færi til United. Það er mikilvægt að greina á milli þess að vera stuðningsmaður og starfsmaður. Flestir vilja spila í ensku úrvalsdeildinni og það er ekkert leyndarmál að hann er einn af þeim," segir Alf-Inge.
Athugasemdir
banner
banner