Mál Alberts Guðmundssonar er komið á borð ákærusviðs Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram á Vísi í dag.
Bylgja Hrönn Baldursdóttir, lögreglufulltrúi hjá kynferðisbrotadeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að rannsókn á máli Alberts sé lokið en rannsóknin tók aðeins um einn mánuð.
Greint var frá því í síðasta mánuði að Albert hefði verið kærður til lögreglu fyrir kynferðisbrot. Albert kom því ekki til greina í landsliðshópinn í verkefni gegn Lúxemborg og Bosníu í þessum mánuði. Hann hefur þó haldið áfram að spila með Genoa á Ítalíu og hefur verið að leika afskaplega vel í upphafi tímabilsins á Ítalíu.
Albert segist saklaus af þessum ásökunum.
„Ég er saklaus af þeim ásökunum sem komið hafa fram. Ég mun ekki tjá mig frekar á meðan málið er til rannsóknar," sagði Albert.
Málið er núna komið á borð ákærusviðs og verður næst ákveðið hvort að málið þurfi frekari rannsókn, hvort rannsókn verði hætt eða hvort það verði sent áfram til ákærumeðferðar.
Athugasemdir