Real gæti gert janúartilboð í Trent - O'Neil verður ekki rekinn - Liverpool vill Eze
banner
   fim 19. september 2024 22:29
Elvar Geir Magnússon
Mosfellsbæ
Rugluð atburðarás í Mosó - Fékk viljandi rautt til að ná úrslitaleiknum
Lengjudeildin
Elmar fékk rauða spjaldið sem hann vildi! Enda fór þumallinn upp!
Elmar fékk rauða spjaldið sem hann vildi! Enda fór þumallinn upp!
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elmar eftir að hann fékk gula spjaldið í fyrri hálfleik.
Elmar eftir að hann fékk gula spjaldið í fyrri hálfleik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þórður Þorsteinn Þórðarson dæmdi leikinn.
Þórður Þorsteinn Þórðarson dæmdi leikinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elmar Kári Enesson Cogic leikmaður Aftureldingar fékk viljandi rautt í lok sigurleiksins gegn Fjölni (3-1) í umspili Lengjudeildarinnar í kvöld. Það gerði hann til að vera löglegur í úrslitaleik umspilsins, komist Afturelding þangað.

Elmar hafði fengið gult spjald í leiknum í kvöld, sem hefði þýtt að hann yrði í banni í mögulegum úrslitaleik. Með því að fá rauða spjaldið fer hann hinsvegar í bann í seinni leiknum gegn Fjölni en verður löglegur í úrslitaleiknum.

Atburðarásin í Mosfellsbænum í kvöld var hreinlega stórskrítin enda býður regluverkið upp á það. Förum aðeins yfir þetta frá upphafi til enda...

Lestu um leikinn: Afturelding 3 -  1 Fjölnir

Elmar var búinn að fá þrjú gul í sumar
Þar sem spjöldin fylgja inn í umspilið var vitað að ef hann fengi sitt fjórða gula spjald í kvöld myndi hann þurfa að taka út leikbann í úrslitaleiknum (miðum þá alltaf við það að Afturelding kæmist þangað).

Þú tekur ekki út bann fyrir uppsafnaðar áminningar nema eftir að aganefndin er búin að funda. Hún fundar vikulega, á þriðjudögum. Seinni leikurinn við Fjölni verður á mánudag og því væri Elmar ekki úrskurðaður í bann fyrr en daginn eftir og tæki bannið því út í úrslitaleiknum annan laugardag.

Hinsvegar ef þú færð rautt spjald þá ferðu sjálfkrafa í eins leiks bann strax í næsta leik (það þarf ekki að bíða eftir aganefndinni). Ef þú færð seinna gula þá breytist það í rautt.

Förum þá í leikinn sjálfan - Elmar fékk gult!
Elmar, sem er einn besti leikmaður deildarinnar, fær gult spjald fyrir dýfu á 33. mínútu. Spjald sem hefði kostað hann leikbann í úrslitaleiknum.

Fólk í stúkunni fer strax að tala um að ef Afturelding myndi ná þægilegri forystu í þessum fyrri leik yrði það sniðugt fyrir Elmar að ná sér viljandi í seinna gula til að gera sig löglegan í úrslitaleiknum.

Að reyna að láta reka sig út af
Elmar kemur Aftureldingu í 2-1 í leiknum. Þegar leikurinn er stopp og verið er að hlúa að leikmanni á vellinum kallar Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, á Elmar og ræðir við hann. Að öllum líkindum um þá sviðsmynd að hann næli sér í rautt spjald.

Þessi skringilega staða virðist taka Elmar aðeins úr sambandi og hann virkaði hálf áttavilltur á vellinum,.

Sigurpáll Melberg skorar og kemur Aftureldingu í 3-1 á 90. mínútu og í uppbótartíma fær Afturelding síðan víti. Auðvitað fer Elmar á punktinn.

Úr að ofan!
Stór hluti áhorfenda og stuðningsmanna Aftureldingar eru algjörlega meðvitaðir um það sem er í gangi og hrópað er 'Úr að ofan!' þegar Elmar undirbýr vítaspyrnuna. Hið fullkomna handrit heimamanna hefði verið að Elmar myndi skora og fagna með því að fara úr treyjunni, fá þannig annað gula og þar með rautt!

Allt þetta truflar líklega einbeitingu hans og vítaspyrnan er varin.

Það tókst að ná rauða spjaldinu!
Í þann mund sem Þórður Þorsteinn Þórðarson dómari er að flauta til leiksloka brýtur Elmar á leikmanni Fjölnis og það skapast læti. Eftir lokaflaut fer annað gula spjaldið og þar með rautt á loft, við fögnuð stuðningsmanna Aftureldingar!

Ætlunarverkið tókst. Elmar verður ekki með í seinni leiknum á mánudag en verður löglegur fyrir úrslitaleikinn.

Úrelt og skrítið regluverk
Þessi furðulega atburðarás verður auðvitað til út af regluverkinu. Það er þörf umræða að ræða um það hvort þessi vikulegi fundur aganefndar og kerfið kringum hann sé ekki barn síns tíma á gervihnattaöld.

Einnig er furðulegt að ekki sé búið að breyta reglum um að fella niður gul spjöld fyrir umspilið. Eitthvað sem ég held að allir séu sammála um að rétt sé að gera en eftir því sem ég kemst næst gleymdist einfaldlega að framkvæma þá breytingu eftir að rætt var um það í fyrra, á fyrsta ári í þessu fyrirkomulagi. Reynum að muna næst!
Athugasemdir
banner
banner
banner