Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 19. nóvember 2020 21:00
Victor Pálsson
„Galið að Hannes eigi að hætta með landsliðinu"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður, kom inná sem varamaður í gær er Ísland tapaði 4-0 gegn Englandi í lokaleik Þjóðadeildarinnar.

Ögmundur Kristinsson fékk tækifærið í byrjunarliðinu á Wembley og fékk tvö mörk á sig í fyrri hálfleik er þeir Declan Rice og Mason Mount skoruðu.

Hannes hefur lengi verið aðalmarkvörður Íslands og er talað um að leikurinn í gær hafi mögulega verið hans kveðjuleikur. Hannes er 36 ára gamall og jafnaði leikjamet Birkis Kristinssonar í gær og spilaði sinn 74. landsleik.

Það var talað um þessa ákvörðun í hlaðvarpsþættinum Dr. Football í dag þar sem Hjörvar Hafliðason, Kristján Óli Sigurðsson og Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir ræddu málin.

Ögmundur stóð sig með prýði í leiknum í gær en hann er leikmaður Olympiakos í Grikklandi.

Kristján segir að það sé rugl að Hannes sé að hætta með landsliðinu en hann er ekki lengur í atvinnumennsku og spilar með Val í efstu deild hér heima.

„Það var ákveðið fyrir leik. Ég held að þetta hafi verið einhver varnagli ef Hannes er að spila sinn síðasta leik. Ég sé ekki af hverju Hannes á eitthvað að vera að hætta í landsliðinu núna, það er bara galið," sagði Kristján.

„Þó það hafi verið 0-0 í hálfleik hefði hann verið tekinn útaf. Ef það á að gefa Hannesi leik þá er hægt að skipta honum inná á 85. mínútu. Hannes er ekkert að fara að hætta í landsliðinu, hann er líklega eini af þessum þremur sem er að spila reglulega næsta sumar. Rúnar Alex fær max fimm leiki með Arsenal í vetur ef allt er eðlilegt."

Bára minnir þá á orð landsliðsþjálfarans Erik Hamren eftir leik en möguleiki er á að Hannes hafi aðeins fengið leikinn til að jafna met Birkis.

Birkir var lengi aðalmarkvörður Íslands og spilaði með liðinu alveg frá 1988 til ársins 2004.

„Hamren talaði um það eftir leik að þetta hafi verið til að gefa Hannesi það að jafna leikjamet Birki Kristins. Hann vildi gefa Hannesi þennan leik til þess að jafna metið."

„Þetta er ástæðan sem þeir gefa út og ég sé ekki aðra ástæðu fyrir því að taka Ömma út úr liðinu miðað við þennan fyrri hálfleik."



Athugasemdir
banner
banner
banner