Íslenska kvennalandsliðið spilar gegn Wales þann 1. desember og Danmörku þann 5. desember í síðustu leikjum sínum í Þjóðadeildinni en báðir leikir fara fram ytra.
Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari tilkynnti hópinn fyrir verkefnið fyrir helgi.
Miklar breytingar urðu á hópnum af ýmsum ástæðanum eftir EM 2022 á Englandi. Steini var til viðtals hjá Fótbolta.net eftir að hafa kynnt hópinn fyrir verkefnið sem framundan er, hann var spurður hvort þessar miklu breytingar hafi komið honum á óvart.
„Einhverjir leikmenn eru að hætta. Ég svo sem vissi ekki að þeir leikmenn sem urðu ófrískar yrðu ófrískar, ég kom ekki nálægt því, ég vissi ekkert um það. Við erum líka að lenda í meiðslum," sagði Steini.
„Þetta er öll flóran í fótbolta, hætta, óléttar og svo meiðsli. Þetta er meira af því þetta gerist allt í einu. Vonandi kemur meiri stöðugleiki þannig það komi ekki svona stór gusa í einu, það sem hefur afgerandi áhrif er að allt þetta þrennt gerist á sama tíma."