Janúartilboð frá Liverpool í Kerkez og Zubimendi - Forest vill Ferguson - Man Utd hefur áhuga á Raum og Yildiz
   mið 20. apríl 2016 14:00
Elvar Geir Magnússon
Spá Fótbolta.net - 5. sæti: Valur
Kristinn Freyr er mikilvægur fyrir Valsliðið.
Kristinn Freyr er mikilvægur fyrir Valsliðið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Danski miðvörðurinn Rasmus Christiansen.
Danski miðvörðurinn Rasmus Christiansen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ingvar Kale, markvörður Valsmanna.
Ingvar Kale, markvörður Valsmanna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kantmaðurinn Daði Bergsson.
Kantmaðurinn Daði Bergsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðjón Pétur Lýðsson grimmur á svip.
Guðjón Pétur Lýðsson grimmur á svip.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sérfræðingar Fótbolta.net spá því að bikarmeistarar Vals hafni í fimmta sæti í Pepsi-deildinni í sumar. Fréttaritarar spá í deildina en þeir raða liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær 12 stig, annað sæti 11 og svo koll af kolli niður í tólfta sæti sem gefur eitt stig. Valur endar í fimmta sæti.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. Valur 64 stig
6. Víkingur R. 61 stig
7. Fylkir 44 stig
8. ÍBV 42 stig
9. Fjölnir 27 stig
10.ÍA 26 stig
11 Víkingur Ólafsvík 24 stig
12. Þróttur 14 stig

Um liðið: Valur gaf eftir í lokaumferðum deildarinnar í fyrra eftir að hafa átt flott sumar. Liðið seig niður í fimmta sætið og liggur skýringin að einhverjum hluta sú að menn hafi verið saddir eftir að bikarmeistaratitill og Evrópusæti var í hús. Ef spáin rætist endar liðið aftur í fimmta sæti en á Hlíðarenda hljóta menn að vilja gera betur í deildinni en á síðasta ári.

Þjálfari - Ólafur Jóhannesson: Náði að gera flotta hluti með liðið í fyrra þar sem það hampaði bikarnum á Laugardalsvelli. Handbragð hans er komið á liðið og það spilar skemmtilegan fótbolta eftir hans leikstíl. Ólafur setur skemmtilegan svip á deildina og hann og Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarmaður hans, mynda augljóslega gott teymi og njóta sín í botn. Ólafur naut sín einnig í sálfræðistríðum í fyrra, sérstaklega kringum bikarúrslitaleikinn. Verður hann með 10/11 derhúfuna?

Styrkleikar: Valsmenn ættu að mæta uppi á tánum í sumarið, ákveðnir í að fylgja eftir góðu tímabili í fyrra og Evrópukeppni er framundan. Valur hefur öfluga miðju og breidd á því svæði; ef Haukur Páll Sigurðsson, Guðjón Pétur Lýðsson og Kristinn Freyr Sigurðsson verða allir í gírnum hefur Valur eina allra bestu miðju deildarinnar og þá er U21-landsliðsmaðurinn Sindri Björnsson mættur frá Leikni ákveðinn í að sanna sig. Það ætti að geta hjálpað liðinu að hafa getað æft á heimavellinum í vetur eftir að gervigras var lagt á hann.

Veikleikar: Kröfurnar á Hlíðarenda eiga það til að fara fram úr því sem eðlilegt getur talist. Eftir bikarúrslitasigur í fyrra og Evrópukeppni í ár gætu margir farið fram úr sér í kröfunum. Danirnir Thomas Guldborg Christensen, klettur í vörninni, og Patrick Pedersen, potturinn og pannan í sóknarleiknum, voru algjörir lykilmenn í fyrra en eru farnir og er hægara sagt en gert að takast á við að missa svona öfluga menn. Færanýtingin hefur verið ákveðið áhyggjuefni hjá Valsmönnum.

Lykilmenn: Bjarni Ólafur Eiríksson og Kristinn Freyr Sigurðsson. Vinstri bakvörðurinn Bjarni var einn besti leikmaður Vals í fyrra og er leikmaður sem flest (ef ekki öll) félög væru mikið til í að hafa í sínum röðum. Er Val gríðarlega mikilvægur. Kristinn Freyr Sigurðsson átti stórgott tímabil í fyrra og var valinn í úrvalslið ársins.

Gaman að fylgjast með: Samvinnu miðvarðanna. Rasmus Christiansen er mættur í hjarta varnarinnar og verður spennandi að fylgjast með samvinnu hans og hins unga Orra Sigurðar Ómarssonar. Orri og Thomas Guldborg smullu saman í fyrra en Rasmus, sem átti ekki mjög sannfærandi tímabil með KR í fyrra, þarf að fylla skarð landa síns.

Spurningamerkið: Valsmenn tilkynntu í febrúar að samið hefði verið við Nikolaj Hansen og hann ætti að koma í staðinn fyrir Patrick Pedersen, markakóng deildarinnar í fyrra. Er hann nægilega góður?

Völlurinn: Valsvöllurinn er einn glæsilegasti fótboltavöllur landsins. Búið er að setja hágæða gervigras á völlinn og flóðljós eru komin upp. Mun nýja gervigrasið á Hlíðarenda hefur jákvæð áhrif á liðið?



Stuðningsmaðurinn segir - Einar Gunnarsson
„Undirbúningstímabilið í ár var óvenju rólegt. Óli og Bjössi hafa komið á ákveðnum stöðugleika í liðinu. Það er meiri breidd á toppnum í ár en var í fyrra. Hansen er kominn ásamt Rolf Toft og svo getur Kristinn Ingi leyst þá stöðu mjög vel. Það er líka meiri breidd í miðjunni með tilkomu GPL#10 og þrátt fyrir að margir stuðningsmenn hafi kallað eftir því að fá Jón Vilhelm aftur til að stjórna spilinu þá ákvað hann að halda kyrru fyrir upp á skaga. Ég hef fulla trú á því að Valsararnir geti náð góðum árangri í sumar. Markmiðið hlýtur að vera að gera betur í ár en í fyrra og stefnan hlýtur að vera sett á topp 3."

Sjá einnig:
Líklegt byrjunarlið Vals
Óli Jó: Eigum ekki séns í FH, KR og Stjörnuna
Kristinn Freyr: Alltaf spáð sama sæti

Komnir:
Guðjón Pétur Lýðsson frá Breiðabliki
Nikolaj Hansen frá FC Vestsjælland
Rasmus Christiansen frá KR
Rolf Toft frá Víkingi R.
Sindri Björnsson frá Leikni R. (Á láni)

Farnir:
Anton Ari Einarsson í Grindavík á láni
Emil Atlason (Var á láni)
Hilmar Þór Hilmarsson í Fram
Iain Williamson í Víking R.
Mathias Schlie til Hobro (Var á láni)
Patrick Pedersen í Viking
Thomas Christensen til Lyngby

Leikmenn Vals sumarið 2016:
Ingvar Þór Kale - 1
Einar Karl Ingvarsson - 4
Guðjón Pétur Lýðsson - 5
Daði Bergsson - 6
Haukur Páll Sigurðsson - 7
Kristinn Ingi Halldórsson - 8
Rolf Toft - 9
Kristinn Freyr Sigurðsson - 10
Sigurður Egill Lárusson - 11
Nikolaj Andreas Hansen - 12
Rasmus Steenberg Christiansen - 13
Gunnar Gunnarsson - 14
Sindri Björnsson - 15
Tómas Óli Garðarsson - 16
Andri Adolphsson - 17
Baldvin Sturluson - 19
Orri Sigurður Ómarsson - 20
Bjarni Ólafur Eiríksson - 21
Andri Fannar Stefánsson - 23
Ásgeir Magnússon - 25
Jón Freyr Eyþórsson - 30

Leikir Vals 2016:
1. maí Valur - Fjölnir
8. maí Víkingur Ó. - Valur
12. maí Valur - Fylkir
17. maí Víkingur R. - Valur
22. maí Valur - Þróttur
29. maí KR - Valur
5. júní Valur - Stjarnan
16. júní Valur - FH
24. júní Breiðablik - Valur
10. júlí Valur - ÍBV
17. júlí ÍA - Valur
24. júlí Fjölnir - Valur
3. ágúst Valur - Víkingur Ó.
7. ágúst Fylkir - Valur
15. ágúst Valur - Víkingur R.
22. ágúst Þróttur - Valur
28. ágúst Valur - KR
11. sept Stjarnan - Valur
15. sept Valur - Breiðablik
18. sept FH - Valur
25. sept ÍBV - Valur
1. okt Valur - ÍA

Spámennirnir: Arnar Daði Arnarsson, Alexander Freyr Einarsson, Elvar Geir Magnússon, Gunnar Birgisson, Hafliði Breiðfjörð, Arnar Geir Halldórsson, Jóhann Ingi Hafþórsson, Magnús Már Einarsson og Magnús Þór Jónsson.
Athugasemdir
banner
banner
banner