Ben Chilwell og Raheem Sterling eru ekki í leikmannahópi Chelsea gegn Servette í umspili Sambandsdeildar Evrópu á fimmtudag en þetta kemur fram á Sky Sports.
Leikmennirnir voru báðir utan hóps í fyrsta deildarleik tímabilsins gegn Manchester City um helgina, en umboðsmannateymi Sterling sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann og föruneyti hans furðuðu sig á ákvörðun Enzo Maresca.
Maresca hefur talað um það að leikmenn gætu þurft að fara frá félaginu fyrir gluggalok.
Sky Sports segir frá því í dag að Chilwell og Sterling séu ekki í leikmannahópi Chelsea sem mætir svissneska liðinu Servette í umspili í Sambandsdeildinni á fimmtudag.
Maresca hefur áður talað um að Chilwell sé frjálst að fara annað, en Sterling er nú sagður skoða sína möguleika eftir leik helgarinnar.
Juventus er sagt vera með augastað á Sterling.
Athugasemdir


