Newcastle United er búið að setja um varaáætlun ef félagið nær ekki samkomulagi við Crystal Palace um enska miðvörðinn Marc Guehi. Þetta segir David Ornstein í kvöld.
Enska félagið hefur átt í löngum viðræðum við Palace um Guehi, en þau félagaskipti eru talin afar ólíkleg í ljósi þess að danski miðvörðurinn Joachim Andersen er á förum frá Palace og á leið í Fulham.
Palace hafnaði fjórða tilboði Newcastle í Guehi á dögunum og er síðarnefnda liðið nú farið að skoða aðra kosti í stöðuna.
Samkvæmt Ornstein eru þeir Axel Disasi, leikmaður Chelsea, og Edmond Tapsoba, leikmaður Bayer Leverkusen, efstir á listanum á eftir Guehi.
Newcastle er byrjað að ræða við Leverkusen vegna Tapsoba og þá hefur félagið tjáð Chelsea um áhuga á að fá Disasi.
Disasi var fastamaður í vörn Chelsea á síðustu leiktíð en var ekki í hópnum í fyrsta deildarleik tímabilsins gegn Manchester City um helgina.
Tapsoba var lykilmaður í vörn Leverkusen sem vann bæði deild- og bikar í Þýskalandi á síðustu leiktíð.
Athugasemdir




