Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 21. maí 2019 15:00
Arnar Daði Arnarsson
Bestur í 5. umferð: Ef þú ert nógu góður þá ertu nógu gamall
Óskar Örn Hauksson - KR
Óskar Örn Hauksson.
Óskar Örn Hauksson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
„Við áttum að sigla þessu þægilega heim en við settum óþarfa spennu í þetta í lokin. Þeir fá skallafæri á fjær í stöðunni 3-2 þá fór um mann, verð ég að viðurkenna. Við tökum þessi þrjú stig feginshendi," sagði Óskar Örn Hauksson leikmaður KR sem er leikmaður 5. umferðar í Pepsi Max-deildinni.

KR vann nýliða HK 3-2 á heimavelli í 5. umferðinni eftir að hafa komist í 3-0 í leiknum.

Þetta var kærkominn sigur fyrir KR-inga sem höfðu gert jafntefli gegn Fylki og tapað gegn Grindavík í leikjunum á undan.

„Við töpuðum stigum gegn Fylki í uppbótartíma. Maður fann að það hafði pínu áhrif á leikmennina. Þetta var góður leikur að okkar hálfu og síðan kemur Grindavíkur leikurinn í kjölfarið og það var því gríðarlega mikilvægt að ná inn sigri í gær," sagði Óskar Örn sem er ánægður með spilamennsku sína í sumar.

„Ég er nokkuð ánægður með spilamennskuna. Ég er hrikalega ferskur og líður vel. Ég er á miklu betri stað núna en í fyrra."

Ungu leikmennirnir í Pepsi Max-deildinni hafa vakið athygli í upphafi sumars og er Óskar Örn til að mynda töluvert eldri en allir þeir leikmenn sem hafa verið valdið leikmenn umferðarinnar hér á Fótbolta.net í sumar.

„Ef þú ert nógu góður þá ertu nógu gamall. Hvort sem þú ert 18-19 ára eða 35 ára eða eldri. Það er gaman að það sé ungir strákar að koma upp og eru að spila vel. Við vorum með einn ungan í gær sem stóð sig hrikalega vel. Það er bara jákvætt," sagði Óskar og á þá við Finn Tómas Pálmason.

Óskar segir deildina fara vel af stað.

„Það eru allir að vinna alla og þetta er galopið eftir fimm umferðir. Það er nóg eftir og mikið sem á eftir að gerast. Ég held að það sé bara gott fyrir alla, þá sérstaklega áhorfendur. Þetta er kannski meira allir að vinna alla en ég bjóst við."

2. júní verður þriðjungur leikja í Pepsi Max-deildinni búinn. Það er því mikið leikið í maí og stutt á milli leikja.

„Sem er kannski ekkert nægilega gott því þá er svo mikið eftir af tímabilinu og það er svo mikið undir í byrjun. Það má ekki einn leikur tapast og það fer allt í panik. Þetta er hrikalega mikilvægur tími og það hefur sýnt sig að lið geta alveg misst af restinni í byrjun júní. Við höfum lent í því og það er því mikilvægt að taka eins mörg stig í maí eins og hægt er," sagði Óskar Örn Hauksson að lokum í samtali við Fótbolta.net.

Domino's gefur verðlaun
Leikmenn umferðarinnar í Pepsi Max-deild karla og kvenna fá verðlaun frá Domino's í sumar.

„Það er laufléttur botn með pepperóni, hakk og piparosti sem verður yfirleitt fyrir valinu. Þetta hentar vel á þriðjudögum í þriðjudagstilboðið með þremur áleggstegundum á 1000kr."

Sjá einnig:
Bestur í 4. umferð: Bjarki Steinn Bjarkason (ÍA)
Bestur í 3. umferð: Kolbeinn Þórðarson (Breiðablik)
Bestur í 2. umferð: Torfi Tímoteus Gunnarsson (KA)
Bestur í 1. umferð: Tryggvi Hrafn Haraldsson (ÍA)
Athugasemdir
banner
banner