banner
   sun 21. júlí 2019 21:19
Arnar Helgi Magnússon
Pepsi Max-deildin: KR fór illa að ráði sínu - Valur glutraði niður tveggja marka forskoti
Björgvin Stefánsson kom KR yfir.
Björgvin Stefánsson kom KR yfir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Luigi gerði jöfnunarmark Víkings R.
Luigi gerði jöfnunarmark Víkings R.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tvær stoðsendingar frá Birki í kvöld.
Tvær stoðsendingar frá Birki í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það var aldeilis dramatík í báðum kvöldleikjum Pepsi Max-deildarinnnar sem voru nú að ljúka. Leikið var á Meistaravöllum og á Víkingsvelli en báðum leikjum kvöldsins lauk með 2-2 jafntefli.

KR 2 - 2 Stjarnan
0-1 Baldur Sigurðsson ('29 )
1-1 Tobias Bendix Thomsen ('57 , víti)
2-1 Björgvin Stefánsson ('80 )
2-2 Hilmar Árni Halldórsson ('93 )

Á Meistaravöllum í Vesturbæ gátu KR-ingar aukið forskot sitt á toppi deildarinnar með sigri á Stjörnunni.

Stjörnumenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og settu pressu á KR fyrstu mínúturnar. Baldur Sigurðsson braut ísinn eftir tæplega hálftíma leik þegar að hann stangaði boltann í netið eftir fyrirgjöf frá Hilmari Árna Halldórssyni.

Flott aukaspyrna frá Hilmari sem að endaði beint á kollinum á Baldri sem að skoraði gegn sínum gömlu félögum. Það mátti samt setja spurningarmerki við Beiti í markinu hjá KR.

KR fékk tækifæri til þess að jafna fyrir hálfleik en það tókst ekki. Gestirnir úr Garðabæ leiddu eftir 45 mínútur.

KR fékk vítaspyrnu þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Þorri Geir Rúnarsson tók þá Arnþór Inga Kristinsson niður innan vítateigs. Tobias Thomsen fór á vítapunktinn og skoraði af miklu öryggi. Staðan orðin 1-1.

Thomsen var nálægt því að koma KR yfir síðar í leiknum þegar hann átti skalla að marki en Haraldur Björnsson varði meistaralega frá Dananum.

Á 58. mínútu gerði Rúnar Kristinsson tvöfalda breytingu sem að átti heldur betur eftir að breyta sóknarleik liðsins. Ægir Jarl og Björgvin Stefánsson komu þá inn fyrir Atla Sigurjónsson og Arnþór Inga.

Björgvin Stefánsson kom KR yfir þegar tæpar tíu mínútur voru til leiksloka. Hann setti boltann þá í netið eftir frábæra fyrirgjöf Ægis Jarls og setti boltann framhjá Halldóri Björnssyni í marki Stjörnunnar. Afar snyrtilegt mark!



Það leit allt út fyrir það að KR yrði með tíu stiga forskot á toppi deildarinnar eftir leiki kvöldsins. Allt kom fyrir ekki. Jóhann Laxdal tók þá langt innkast sem að endaði á kollinum á Hilmari Árna og hann stangaði boltann í netið.

Lokatölur á Meistaravöllum 2-2 í bráðskemmtilegum knattspyrnuleik.

Valsmenn glutruðu niður tveggja marka forskoti
Víkingur R. 2 - 2 Valur
0-1 Lasse Petry Andersen ('7 )
0-2 Sigurður Egill Lárusson ('52 )
1-2 Guðmundur Andri Tryggvason ('59 )
2-2 Logi Tómasson ('87 )

Það stefndi allt í það að Valur væri að fara að vinna sinn fjórða deildarleik í röð í kvöld þegar Íslandsmeistararnir voru komnir í 0-2 gegn Víking R. í Fossvoginum. Mark Loga Tómassonar undir lok leiks kom í veg fyrir það.

Daninn Lasse Petry kom Val yfir eftir einungis sjö mínútna leik þegar hann skallað boltann í netið eftir sendingu frá landsliðsmanninum Birki Má Sævarssyni. Afleitur varnarleikur hjá heimamönnum.

Víkingur R. náði flottum kafla um miðjan síðari hálfleik og voru betri aðilinn á vellinum en náðu ekki að koma boltanum í netið. 0-1 í hálfleik.

Sigurður Egill Lárusson tvöfaldaði forystu Vals í upphafi síðari hálfleiks þegar hann stýrði boltanum í netið eftir sendingu, aftur, frá Birki Má.

Guðmundur Andri Tryggvason minnkaði muninn fyrir Víking stuttu síðar. Hann skallaði þá fasta fyrirgjöf Davíðs Arnar í netið, framhjá landsliðsmarkverðinum.

Logi Tómasson jafnaði fyrir Víking undir lok venjulegs leiktíma þegar hann setti boltann snyrtilega í netið eftir sendingu frá Nikolaj Hansen. Logi skoraði einnig gegn Val í fyrstu umferð deildarinnar í vor.

Fleiri mörk voru ekki skoruð í Fossvoginum og frábær úrslit fyrir Víking R. úr því sem komið var. Algjörlega ömurlegt fyrir Íslandsmeistarana hinsvegar.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner