Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   lau 21. september 2019 22:20
Ívan Guðjón Baldursson
Anderson leggur skóna á hilluna 31 árs
Mynd: Getty Images
Brasilíski miðjumaðurinn Anderson, sem lék eitt sinn fyrir Manchester United og Porto, er búinn að leggja skóna á hilluna þrátt fyrir að vera aðeins 31 árs gamall. Þetta staðfesti forseti Adana Demirspor, félagið sem hann leikur fyrir í Tyrklandi.

Anderson lék fyrir Internacional í þrjú ár og skipti yfir til Demirspor í fyrra. Demirspor endaði í 6. sæti tyrknesku B-deildarinnar með Anderson innanborðs.

Sir Alex Ferguson fékk Anderson til Rauðu djöflanna sumarið 2007, eftir að hann hafði spilað vel hjá Porto. Anderson byrjaði vel hjá sínu nýja félagi en meiðsli settu strik í reikninginn á hans þriðja tímabili og þaðan lá leiðin aðeins niður á við.

Í heildina spilaði Anderson 181 leik á sjö árum hjá Man Utd og vann ensku úrvalsdeildina fjórum sinnum. Hann vann Meistaradeildina og HM félagsliða 2008 en þar áður hafði hann unnið portúgölsku deildina og bikarinn með Porto.

Hann þótti gífurlega efnilegur á yngri árum og vann Gullknöttinn á HM U17 2005. Árið 2008 var hann svo tilnefndur sem Gulldrengurinn, sem eru sérstök verðlaun sem eru veitt efnilegasta knattspyrnumanni heims á hverju ári.

Matthijs de Light var efnilegastur í fyrra og Kylian Mbappe árið áður. Anthony Martial, Raheem Sterling og Paul Pogba eru meðal þeirra sem hafa hlotið verðlaunin.

Anderson lék 8 leiki fyrir A-landslið Brasilíu á ferlinum og 17 fyrir yngri landsliðin.
Athugasemdir
banner
banner
banner