Grindavík vann dramatískan 2-1 sigur á Fram er liðin mættust í Safamýri í kvöld en sigurmarkið kom undir lok leiks. Þá vann Afturelding góðan 1-0 sigur á Víking Ó.
Framarar hafa spilað gríðarlega vel á þessu tímabili og eru í harðri baráttu um sæti í efstu deild. Leikurinn í kvöld var því mikilvægur í þeirri baráttu.
Grindavík komst yfir á 32. mínútu er Aron Jóhannsson skoraði eftir sendingu frá Guðmundi Magnússyni. Staðan var 1-0 fyrir gestina í hálfleik en á 50. mínútu jafnaði Alexander Már Þorláksson metin fyrir Framara.
Bæði lið skiptust á að fá hættuleg færi í leiknum og var hann afar opinn. Á 81. mínútu var Gunnar Þorsteinsson svo rekinn af velli úr liði Grindavíkur. Hann var á gulu spjald og fór í Aron Þórð við hliðarlínuna og fékk þar af leiðandi sitt annað gula spjald og þar með rautt.
Unnar Steinn Ingvarsson var einnig sendur í sturtu aðeins sex mínútum síðar. Annað gula spjaldið hans og því jafnt í liðum.
Dramatíkin var ekki búin því Sigurður Bjartur Hallsson gerði sigurmarkið á lokasekúndum síðari hálfleiks og tryggði þar með Grindavík 2-1 sigur á Fram. Öflug þrjú stig fyrir Grindavík en þarna varð fram af mikilvægum stigum í toppbaráttunni.
Afturelding vann þá Víking Ó. 1-0. Kári Steinn Hlífarsson skoraði eina mark leiksins á 32. mínútu eftir gott spil heimamanna og mikilvæg þrjú stig en liðið er með 21 stig í 8. sæti á meðan Víkingur er einu sæti neðar með 16 stig.
Úrslit og markaskorarar:
Fram 1 - 2 Grindavík
0-1 Aron Jóhannsson ('32 )
1-1 Alexander Már Þorláksson ('50 )
1-2 Sigurður Bjartur Hallsson ('90 )
Rautt spjald: ,Gunnar Þorsteinsson , Grindavík ('81)Unnar Steinn Ingvarsson , Fram ('87)
Afturelding 1 - 0 Víkingur Ó.
1-0 Kári Steinn Hlífarsson ('32 )
Athugasemdir