Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 21. september 2022 18:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Get tekið undir það að ég eigi mínar bestu frammistöður inni með landsliðinu"
Alfons Sampsted
Alfons Sampsted
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Höskuldur Gunnlaugsson
Höskuldur Gunnlaugsson
Mynd: Getty Images
Hægri bakvörðurinn Alfons Sampsted á að baki þrettán A-landsleiki og hefur verið byrjunarliðsmaður frá því að Birkir Már Sævarsson lagði skóna á hilluna. Hann er fastamaður í liði Bodö/Glimt í Noregi sem hefur orðið norskur meistari síðustu tvö ár.

Alfons hefur verið gagnrýndur fyrir frammistöðu sína með landsliðinu. Alfons var til viðtals í gær og var hann spurður út í gagnrýnina.

„Ég get alveg tekið undir það að ég eigi mínar bestu frammistöður inni með landsliðinu. Það er alveg himinn og haf milli þess hvernig leikirnir þróast oft með landsliðinu miðað við leiki hjá Bodö/Glimt. Það er meiri fætingur og meira púður sem fer í að koma okkur inn í leikina í landsliðinu. Hjá Bodö/Glimt náum við oftast frekar góðri stjórn alveg til að byrja með," sagði Alfons.

„En eftir þessa leiki sem við (Bodö/Glimt) höfum spilað núna í Evrópu er ég nokkuð viss um að ég sé kominn með aðeins meiri vídd þegar kemur að því sem þarf til með landsliðinu. Það er mjög gaman að eiga mínar bestu frammistöður inni, það væri leiðinlegt ef ég myndi klára þær allar í fyrstu leikjunum. Ég þarf að halda áfram að læra kerfi landsliðsins og bæta hlutum við minn leik svo ég geti skilað einhverju meira til landsliðsins heldur en hingað til. Ég mun ekki gefast upp, það er 100%."

Verðskuldað að Höskuldur fékk kallið
Alfons er ekki með landsliðinu í þessu landsliðsverkefni vegna axlarmeiðsla. Hann var valinn í hópinn en þurfti að draga sig úr honum og annar Bliki, Höskuldur Gunnlaugsson var kallaður inn í staðinn fyrir Alfons.

„Ég og Höskuldur erum frábærir vinir, mér finnst hann eiga skilið að vera kallaður upp eftir tímabilið sem hann er búinn að eiga í ár. Hann er búinn að vera virkilega flottur, bæði í bakverðinum og á miðjunni. Það hlýtur að vera mikið púður fyrir hann að fá að koma inn í hópinn í fjórða skiptið í ár. Ég er mjög glaður að sjá það og ég vona að hann fái að sýna sínar bestu hliðar þar. Það væri ótrúlega gaman."

Höskuldur er fyrirliði Breiðabliks en hann reyndi fyrir sér í atvinnumennsku erlendis með Halmstad. Gætiru séð Höskuld fyrir þér fara aftur út í atvinnumennsku?

„Það er allt undir honum komið. Mér finnst frammistaða hans í ár vera á pari við það sem væri ætlast til af honum í Evrópu. Ef að það kæmi þá hugsa ég að hann myndi alveg ráða vel við það. Hann þyrfti bara að vanda valið, velja umhverfi og klúbb sem hentar honum vel. Þá getur hann blómstrað," sagði Alfons.
Athugasemdir
banner
banner