Það fóru þrír leikir fram í efstu deild í Sádi-Arabíu í dag þar sem fallbaráttulið Al-Okhdood sigraði á heimavelli til að setja Jóhann Berg Guðmundsson og félaga í enn meiri klípu.
Al-Okhdood klifrar uppfyrir Jóa og félaga sem leika í liði Al-Orubah en bæði liðin eru í fallsæti fyrir lokaumferð deildartímabilsins.
Jói og félagar þurfa núna að sigra sinn leik í lokaumferðinni og á sama tíma vona að Al-Okhdood og Al-Wehda klúðri sínum leikjum.
Eini möguleikinn fyrir Al-Orubah til að forðast fall er að jafna Al-Wehda á stigum. Markatala Al-Orubah er talsvert verri, en liðinu gekk betur í beinum innbyrðisviðureignum gegn Al-Wehda.
Al-Fateh bjargaði sér þá frá falli í dag með sigri gegn Damac áður en stjörnum prýtt lið Al-Ahli tapaði á heimavelli gegn Al-Ettifaq.
Ivan Toney tók forystuna fyrir heimamenn með marki úr vítaspyrnu snemma leiks og var staðan 1-0 í leikhlé, en gestirnir skiptu um gír í síðari hálfleik. Georginio Wijnaldum skoraði úr vítaspyrnu í síðari hálfleik og urðu lokatölur 1-3 fyrir Al-Ettifaq.
Bæði lið sigla lygnan sjó í efri hluta deildarinnar.
Al-Ahli 1 - 3 Al-Ettifaq
1-0 Ivan Toney ('6, víti)
1-1 Mohammed Abdulrahman ('49)
1-2 Georginio Wijnaldum ('87, víti)
1-3 Madallah Al-Olayan ('95)
Al-Okhdood 1 - 0 Al-Raed
Damac 0 - 1 Al-Fateh
Athugasemdir