Rodrygo orðaður við Arsenal - Wirtz velur milli Bayern og Liverpool - Barcelona vill Díaz
   fim 22. maí 2025 21:03
Ívan Guðjón Baldursson
Leikmenn standa með Postecoglou: „Vorkenni arftakanum"
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Ange Postecoglou, þjálfari Tottenham, hefur legið undir gífurlega mikilli gagnrýni á tímabilinu en í gærkvöldi varð hann Evrópudeildarmeistari með Tottenham.

Það er risastórt afrek fyrir Tottenham og voru leikmenn himinlifandi eftir sigurinn. Guglielmo Vicario, Kevin Danso og Son Heung-min eru meðal þeirra sem þökkuðu Postecoglou sérstaklega fyrir í viðtölum að leikslokum.

Það lítur út fyrir að leikmenn Tottenham standi þétt við bakið á Postecoglou en framtíð Ástralans er óljós. Hann á tvö ár eftir af samningi við Tottenham.

Fótboltasérfræðingurinn Paul Merson, sem lék meðal annars fyrir Arsenal á ferli sínum sem atvinnumaður, tjáði sig um Postecoglou eftir Evrópudeildarsigurinn. Hann segist vorkenna arftaka hans ef Ástralinn skiptir um starf í sumar.

„Ange Postecoglou á mikið hrós skilið. Hann talaði um að vinna titil á öðru tímabilinu og afrekaði það. Hann talaði um þetta sem staðreynd og það rættist úr því. Þetta er magnað afrek fyrir Tottenham, þetta félag er ekki vant því að vinna titla," segir Merson.

„Það eru 17 ár síðan Tottenham vann síðast titil og ég er mjög hrifinn af Postecoglou sem þjálfara. Ég er ánægður fyrir hans hönd. Hann hefur legið undir mikilli gagnrýni en ég hef miklar mætur á honum sérstaklega því hann spilar skemmtilegan fótbolta. Það er æðislegt að horfa á fótboltaleiki með Tottenham útaf því að þeir eru aldrei leiðinlegir. Fótbolti í dag er mikið af sendingum til hliðar án þess að það sé mikið að gerast, það er ekki tilfellið þegar Tottenham mætir til leiks.

„Postecoglou er kominn með svakalega ferilskrá, honum mun farnast vel hvað sem gerist. Hugsið bara um alla þá frábæru stjóra sem hafa verið hjá Tottenham án þess að vinna titil. Ef Spurs lætur Ange fara í sumar þá vorkenni ég arftakanum hans, þetta verður ótrúlega erfitt starf að fara í eftir að hafa sigrað langþráðan titil.

„Næsta tímabil verður mjög erfitt. Það verður ekki auðvelt að komast inn í topp 6 þar sem Liverpool, Arsenal, Newcastle, Manchester City, Aston Villa og Chelsea eru að gera góða hluti."

Athugasemdir