Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   fim 22. október 2020 17:00
Magnús Már Einarsson
Moli heimsótti 34 staði í grasrótarverkefni KSÍ - 70 næsta sumar?
Hress hópur á Kirkjubæjarklaustri ásamt Mola og Sigðurði þjálfara.
Hress hópur á Kirkjubæjarklaustri ásamt Mola og Sigðurði þjálfara.
Mynd: KSÍ
Frá heimsókn Mola á Vopnafjörð.
Frá heimsókn Mola á Vopnafjörð.
Mynd: KSÍ
Moli fer yfir málin á Þingeyri.
Moli fer yfir málin á Þingeyri.
Mynd: KSÍ
KSÍ stóð annað sumarið í röð fyrir sérstöku grasrótarverkefni þar sem Siguróli Kristjánsson heimsótti minni bæjarfélög á landinu og stóð fyrir æfingum, heilsaði upp á heimafólk og studdið við bakið á þjálfurum.

Siguróli, eða Moli eins og hann er kallaður, heimsótti 34 staði á landsbyggðinni og um 600-700 krakkar tóku þátt á æfingum undir handleiðslu hans. Hann hafði battavelli með í för sem nýttust vel. Báðu félögin KSÍ að hafa milligöngu um magnkaup á slíkum battavöllum til að fá hagstæðari verð því battavellir henta vel á minni stöðum. KSÍ er þegar komið í samband við framleiðandann.

Vilja þróa verkefnið áfram
Starfshópur um útbreiðslumál hjá KSÍ heldur utan um verkefnið með stuðningi frá grasrótarstarfi UEFA en á öllum stöðunum voru þátttakendur og félögin leyst út með gjöfum.

„Moli fór annan hring um landið í sumar til að heimsækja fámennari félögin okkar og stóð sig frábærlega. Landsbyggðin hreinlega elskar Mola. Það var ákveðin óvissa með verkefnið í vor vegna kórónuveirufaraldursins en þegar glugginn opnaðist þá fór Moli af stað," sagði Þorsteinn Gunnarsson, stjórnarmaður KSÍ og formaður starfshóps um útbreiðslumál.

„Móttökurnar voru til fyrirmyndar og krakkarnir og forráðamenn félaganna glaðir að fá Mola og KSÍ aftur í heimsókn. Farið var á nokkra nýja staði sem mæltist einnig vel fyrir. Þakklætið er mikið. Fullur vilji er í útbreiðsluhópnum og stjórn KSÍ að halda áfram að þróa þetta skemmtilega og þakkláta verkefni áfram og er sú vinna þegar farin af stað."

Börn og fullorðnir mættu aftur
Moli fór á 33 staði í fyrra og að hans sögn komu 70-80% af krökkunum í þessum byggðarlögum aftur á æfingarnar í ár. Forráðamenn og þeir sem ráða á stöðunum komu einng aftur og hellingur af foreldrum

„Allir vilja pönnuvöllinn og bíða í heilt ár eftir honum, mörg litlu bæjarfélögin eru að leita eftir fjármagni til að kaupa völl vegna vinsælda," sagði Moli.

„Ég lofaði krökkunum að ég komi á næsta ári og þá verða þau búin að efna þessi loforð:
A) minnka tölvu og símanotkun um helming,
B) hreyfa sig daglega,
C) sofa á réttum tíma,
D) borða hollan mat

„Þau vita og eru sammála um að
A) fótbolti á að vera skemmtilegur og
B) það má gera mistök."


Moli er stórhuga og vill gera verkefnið mun stærra á næsta ári. Hann vill þá heimsækja 70 staði.

„Nú þarf að fara í það strax að undirbúa 2021, byrja fyrr og vera lengur.
A) Fá styrktaraðila, (fótbolti og lýðheilsa, grasrót KSÍ),
B) Gefa okkur góðan tíma á hverjum stað og fjölga þeim í 70,
C) Auglýsa grasrótina með jákvæðni að leiðarljósi, burt með kvíða og hreyfingarleysi. Ef þú ert ekki í fótbolta farðu þá í aðra íþrótt, það eru mín skilaboð hvar sem ég kem."


Hér að neðan má sjá myndir og umsagnir Mola frá stöðunum sem heimsóttir voru í ár.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner