Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   fim 22. október 2020 10:50
Elvar Geir Magnússon
Óvissa með bikarkeppnina - „Yrði súrt að geta ekki klárað hana"
Mjólkurbikarinn.
Mjólkurbikarinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Búið er að teikna upp hvernig Íslandsmótið verði klárað í komandi mánuði ef afléttanir verða á takmörkunum í samfélaginu. Hinsvega er ekki búið að setja dagsetningar á leiki Mjólkurbikarsins en þar á eftir að leika undanúrslit og úrslitaleiki í karla- og kvennaflokki.

Óvíst er hvort bikarkeppnin verði kláruð.

„Þegar við tókum þessar ákvarðanir í vikunni þá ákváðum við að taka bikarkeppnina út fyrir sviga. Stjórnin mun ákveða framhaldið með hana, það er bara næsta verk. Það yrði súrt ef ekki tækist að klára þá leiki sem þar eru eftir," segir Valgeir Sigurðsson, formaður mótanefndar KSÍ.

Bikarkeppnin er innan reglugerðar KSÍ um að ljúka þurfi mótum fyrir 1. desember sem eykur líkurnar á því að keppnin klárist ekki.

„Reglugerðin er skýr og bikarkeppnin er þar inni. En auðvitað er þetta allt mannana verk og mér finnst eðlilegt að stjórnin gefi sér smá ráðrúm til að fara yfir stöðuna."

„Það var ljóst að ef við værum komin í þessa stöðu þá færi bikarinn aftur fyrir. Hugsanlega erum við þá að reyna að kaupa okkur tíma og átta okkur á þessu áður en við klárum þessa umræðu og tökum ákvörðun," segir Valgeir.

Umræða hefur verið uppi um hvort ekki sé mögulegt að klára bikarkeppnina næsta vor.

„Það hafa engar sviðsmyndir verið teiknaðar upp varðandi bikarinn hjá stjórninni. Það er verkefni sem er framundan."

Undanúrslit í Mjólkurbikar karla:
Valur - KR
ÍBV - FH

Undanúrslit í Mjólkurbikar kvenna:
KR - Þór/KA
Selfoss - Breiðablik
Athugasemdir
banner
banner