Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 23. júlí 2019 21:09
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Pepsi Max-kvenna: Flóðgáttir opnuðust hjá Stjörnunni - Toppliðin sigruðu
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Jasmín skoraði tvö fyrir Stjörnuna í kvöld
Jasmín skoraði tvö fyrir Stjörnuna í kvöld
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Síðustu þremur leikjum kvöldsins í Pepsi Max-deild kvenna var rétt í þessu að ljúka. Fyrr í kvöld lagði Fylkir lið Þór/KA, 3-0 og ÍBV sigraði Keflavík, 3-2.

Í Víkinni tók botnlið HK/Víkings á móti Stjörnunni sem hafði ekki skorað í lengri tíma. Markaleysi er ekki rétta orðið yfir leikinn í kvöld því sjö mörk litu dagsins ljós. Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir kom Stjörnunni yfir á fimmtu mínútu leiksins. Arna Eiríksdóttir jafnaði leikinn tíu mínútum seinna en Hildigunnur og Jasmín Erla Ingadóttir sáu til þess að Stjarnan leiddi, 1-3, í hálfleik.

Brynhildur Vala Björnsdóttir minnkaði muninn á 47. mínútu. Brynhildur kom inn á í hálfleik og tók sér því ekki langan tíma í að skora. Aftur svöruðu Jasmín og Hildigunnur marki HK/Víkings og komu Stjörnunni þremur mörkum yfir. Fleiri urðu mörkin ekki og 2-5 sigur Stjörnunnar staðreynd.

Á Hlíðarenda tók Valur á móti KR. KR hafði unnið síðustu þrjá leiki sína í öllum keppnum og Valur hafði einungis tapað stigum gegn Breiðablik í sumar.

Elín Metta Jensen kom Val yfir á 14. mínútu og skömmu seinna bætti Hlín Eiríksdóttir við öðru marki Vals. Hlín er systir Örnu sem skoraði hjá HK/Víking í kvöld.

Hlín innsiglaði 3-0 sigur Vals með öðru marki sínu þegar rúmar tíu mínútur lifðu leiks þegar hún skallaði hornspyrnu í netið. 11. deildarmark Hlínar í sumar.

Undir lok leiks kom Málfríður Erna Sigurðardóttir inn á hjá Val en Málfríður var búin að leggja skóna á hilluna.

Selfoss sem hafði unnið þrjá leiki í röð heimsótti Breiðablik í Kópavoginn. Berglind Björg Þorvalsddóttir og Alexandra Jóhannsdóttir sáu til þess að Breiðablik leiddi 2-0 í hálfleik.

Það fór um einhverja Blika þegar Magdalena Anna Reimus minnkaði muninn fyrir Selfoss með marki þegar um 20 mínútur lifðu leiks. Mínútu seinna fékk hún svipað færi en tókst ekki að jafna. Selfoss reyndi að koma inn jöfnunarmarkinu en það tókst ekki.

Breiðablik og Valur eru því enn efst og jöfn á toppnum.

Breiðablik 2 - 1 Selfoss
1-0 Berglind Björg Þorvaldsdóttir ('22 )
2-0 Alexandra Jóhannsdóttir ('44 )
2-1 Magdalena Anna Reimus ('69 )
Lestu nánar um leikinn


Valur 3 - 0 KR
1-0 Elín Metta Jensen ('14 )
2-0 Hlín Eiríksdóttir ('20 )
3-0 Hlín Eiríksdóttir ('79 )
Lestu nánar um leikinn


HK/Víkingur 2 - 5 Stjarnan
0-1 Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir ('5 )
1-1 Arna Eiríksdóttir ('15 )
1-2 Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir ('30 )
1-3 Jasmín Erla Ingadóttir ('36 )
2-3 Brynhildur Vala Björnsdóttir ('47 )
2-4 Jasmín Erla Ingadóttir ('59 , víti)
2-5 Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir ('73 )
Lestu nánar um leikinn
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner