Brasilíski kantmaðurinn Raphinha þurfti að fara meiddur af velli er Leeds gerði 1-1 jafntefli við Wolves í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Romain Saiss tæklaði Raphinha illa svo brasilíski kantmaðurinn þurfti að fara af velli. Robert Jones dómari dæmdi aukaspyrnu en spjaldaði Saiss ekki fyrir tæklinguna heldur gaf hann honum gult spjald fyrir kjaftbrúk.
Tæklingin ein og sér verðskuldaði líklega rautt spjald en fimm mínútum síðar braut Saiss aftur af sér án þess að fá seinna gula spjaldið.
Það sem meira er, þá hleypti dómarinn læknateymi Leeds ekki inn á völlinn heldur lét hann Raphinha hoppa útaf á einum fæti.
Raphinha birti myndband af tæklingunni á Instagram og skrifaði undir á portúgölsku „Bestu dómararnir eru í ensku úrvalsdeildinni."
Raphinha er langt frá því að vera sá fyrsti til að kvarta undan gæðum dómara í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
Eftir að hafa birt myndbandið tók Raphinha fram að meiðslin væru ekki alvarleg.
Gæði kantmannsins eru óumdeilanleg og skoraði hann tvö og lagði tvö upp fyrir Brasilíu í síðasta landsleikjahléi.
Athugasemdir