Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   fös 24. janúar 2020 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Bayern fær Kuhn að láni frá Ajax - Efnilegasti Þjóðverjinn
Mynd: Getty Images
Ajax og FC Bayern hafa komist að samkomulagi um að kantmaðurinn ungi Nicolas-Gerrit Kühn muni leika með Þýskalandsmeisturunum út tímabilið.

Staða Kühn, sem er tvítugur, er afar áhugaverð þar sem hann þykir gríðarlega mikið efni í heimalandinu þrátt fyrir að komast ekki í aðalliðið hjá Ajax.

Hann var valinn besti U19 leikmaður Þýskalands í fyrra og hefur skorað 17 mörk í 23 unglingalandsleikjum.

Undanfarin ár hafa menn á borð við Jonathan Tah, Matthias Ginter, Marc-Andre ter Stegen og Kai Havertz verið krýndir bestu U19 leikmenn Þýskalands.

Kühn hefur verið að spila með Jong Ajax sem trónir á toppi hollensku B-deildarinnar en markaskorunin verið léleg. Framherjinn hefur aðeins gert 5 mörk í 38 deildarleikjum en frammistaða hans í unglingakeppni UEFA hefur vakið athygli, þar sem hann er með 6 mörk í 6 leikjum.

Ólíklegt er að Kühn spili fyrir aðallið Bayern en þýska stórveldið mun vafalaust byrja á að prófa hann með varaliðinu. Bæjarar vona að ungstirnið springi út í München og verði keyptur.

Ajax borgaði 2 milljónir evra til að kaupa Kühn frá RB Leipzig sumarið 2018.
Athugasemdir
banner
banner