Íslands- og bikarmeistarar Breiðabliks hafa fengið til sín svakalegan styrk fyrir komandi leiktíð en Elísa Viðarsdóttir er gengin í raðir félagsins frá Val.
Elísa er uppalin í Vestmannaeyjum og hóf meistaraflokksferil sinn með ÍBV.
Þar var hún lykilkona og var hluti af sterku liði sem hafnaði í öðru sæti efstu deildar árið 2012. Árið 2013 var hennar síðasta tímabil með ÍBV áður en hún hélt í atvinnumennsku.
Eyjakonan spilaði tvö tímabil með Kristianstad í Svíþjóð og kom síðan heim og samdi við Val þar sem hún varð margfaldur Íslands- og bikarmeistari. Þar að auki á hún 53 A-landsleiki fyrir Ísland.
Elísa yfirgaf Val eftir síðustu leiktíð og hefur nú samið við Breiðablik, besta lið landsins, um að leika með liðinu á komandi tímabili.
Gríðarlegur liðsstyrkur hjá Blikum sem hafa misst marga öfluga leikmenn. Bryndís Arna Níelsdóttir kom þá frá Växjö og þá framlengdi Berglind Björg Þorvalsdóttir samning sinn við félagið.
Athugasemdir




