Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 24. febrúar 2020 07:30
Ívan Guðjón Baldursson
Ziyech fær fimm ára samning hjá Chelsea
Mynd: Getty Images
Marokkóski miðjumaðurinn Hakim Ziyech er búinn að skrifa undir fimm ára samning við Chelsea. Frá þessu er greint á vefsíðu félagsins.

Chelsea og Ajax staðfestu félagaskiptin fyrr í febrúar en Ziyech var ekki búinn að skrifa undir samninginn á þeim tíma.

Hinn 26 ára gamli Ziyech fær fimm ára samning sem gildir út tímabilið 2024/25.

Ziyech leikur sem skapandi miðjumaður og hefur verið lykilmaður hjá Ajax og marokkóska landsliðinu undanfarin ár.

Hann hefur verið mjög eftirsóttur undanfarin ár og vakti mikla athygli á sér er Ajax komst í undanúrslit Meistaradeildarinnar í fyrra.

AS Roma var nálægt því að kaupa hann fyrir einu og hálfu ári síðan og voru félög á borð við Arsenal, Liverpool og Sevilla á eftir honum síðasta sumar.

Ziyech mun væntanlega berjast við Mason Mount um byrjunarliðssæti, en hann getur einnig spilað á köntunum og því áhugavert að fylgjast með hvernig Frank Lampard mun koma til með að nota hann.

Chelsea greiðir 45 milljónir evra fyrir miðjumanninn.

„Ég er stoltur að vera búinn að skrifa undir samning við svona stórt félag eins og Chelsea. Ég hlakka til næsta tímabils og vona að við getum afrekað eitthvað saman," sagði Ziyech við undirskriftina.
Athugasemdir
banner
banner