Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   lau 24. ágúst 2019 18:24
Ívan Guðjón Baldursson
Inkasso: Tíu Leiknismenn náðu í stig á Akureyri
Dómarar í aðalhlutverki
Mynd: Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Þór tók á móti Leikni R. í toppbaráttu Inkasso-deildarinnar í afar áhugaverðum leik.

Leiknismenn voru líklegri í byrjun leiks en Þórsarar komust yfir með marki frá Alvaro Montejo eftir að boltinn datt fyrir hann í vítateignum.

Leiknismenn kvörtuðu undan markinu og vildu fá dæmt hættuspark í aðdragandanum en Sigurður Hjörtur Þrastarson leyfði markinu að standa.

Það leið ekki á löngu þar til Sigurður Hjörtur var kominn í aðalhlutverk. Hann rak þá Bjarka Aðalsteinsson af velli með beint rautt spjald fyrir að hafa sýnt takkana of mikið þegar hann framkvæmdi hættuspark. Rautt spjald var líklega strangur dómur og hefði gult verið hæfara samkvæmt blaðamannastúkunni.

Leikmenn og starfsteymi Leiknis voru ekki sáttir með spjaldið og fékk Eyjólfur Tómasson, markvörður, gult spjald fyrir mótmæli. Skömmu síðar var Valur Gunnarsson markmannsþjálfari Leiknis sendur upp í stúku fyrir mótmæli.

Staðan var því 1-0 í leikhlé þrátt fyrir góða frammistöðu Leiknismanna, sem voru aðeins 10 eftir á vellinum.

Leiknismönnunum tíu tókst að jafna í síðari hálfleik þegar Stefán Árni Geirsson lét vaða fyrir utan teig og smellhitti knöttinn sem söng í netinu.

Meira var ekki skorað í leiknum og náðu Leiknismenn í stig á Akureyri þrátt fyrir mikið mótlæti.

Liðin eru því áfram í þriðja og fjórða sæti deildarinnar. Þór er þremur stigum fyrir ofan Leikni og tveimur stigum frá toppliði Fjölnis.

Þór 1 - 1 Leiknir R.
1-0 Alvaro Montejo ('27)
1-1 Stefán Árni Geirsson ('59)
Rautt spjald: Bjarki Aðalsteinsson , Leiknir R. ('35)
Rautt spjald: Valur Gunnarsson , Leiknir R. ('36)

Það var líka dramatík í fallbaráttuslag sem fór fram á sama tíma. Njarðvík tók þar á móti Magna í Reykjanesbæ og var staðan markalaus eftir tíðindalítinn fyrri hálfleik.

Það dró þó til tíðinda í síðari hálfleik og misstu Grenvíkingar leikmann af velli með rautt spjald á 50. mínútu. Sveinn Óli Birgisson fékk þá beint rautt spjald við litla hrifningu stuðningsmanna Magna.

Heimamenn juku sóknarþungan og komust yfir með marki frá Atla Geir Gunnarssyni á 71. mínútu. Hann stangaði fyrirgjöf frá Stefáni Birgi Jóhannessyni þá í netið.

Tíu leikmenn Magna gáfust þó ekki upp og náðu að pota inn jöfnunarmarki eftir mistök Brynjars Atla Bragasonar í marki Njarðvíkur. Gleði Magna dugði þó skammt því Ari Már Andrésson skoraði skömmu síðar og tryggði heimamönnum sigurinn.

Gunnar Örvar Stefánsson fékk dauðafæri til að jafna leikinn í uppbótartíma en vippan hans misheppnaðist og boltinn endaði langt yfir.

Þessi sigur er lífsnauðsynlegur fyrir Njarðvíkinga sem eru áfram á botninum, þó aðeins tveimur stigum frá öruggu sæti í deildinni. Magni er í næsta sæti fyrir ofan.

Njarðvík 2 - 1 Magni
1-0 Atli Geir Gunnarsson ('71)
1-1 Jakob Hafsteinsson ('81)
2-1 Ari Már Andrésson ('83)
Rautt spjald: Sveinn Óli Birgisson, Njarðvík ('50)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner