banner
   mán 24. september 2018 11:36
Magnús Már Einarsson
Heimir Hallgríms blæs á sögusagnir - Stefnir á félagslið erlendis
Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það er ekkert til í þessu," sagði Heimir Hallgrímsson, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands, við Fótbolta.net í dag aðspurður út í kjaftasögur í Pepsi-mörkunum í gær. Þar var Heimir orðaður við þjálfarastöður hjá ÍBV og KA.

Heimir hætti sem þjálfari íslenska landsliðsins í júlí og hefur fengið talsvert af fyrirspurnum erlendis frá síðan þá. Áhugi hans liggur í að taka við félagsliði erlendis.

„Planið er að vera tilbúinn í eitthvað um áramótin eða eitthvað svoleiðis," sagði Heimir.

„Ég er að halda mig við það plan sem ég setti mér. Ég er að fara á námskeið og læra. Ég er líka með fyrirlestra og er að reyna að samtvinna þetta."

„Mig langar að fara í félagsliðafótbolta aftur. Þá þarf maður smá undirbúningstíma. Það er svolítið mikið öðruvísi en að vera með landslið. Það sem ég geri, ég vil gera það vel."

Heimir hefur meðal annars verið orðaður við þjálfarastörf í MLS-deildinni í Bandaríkjunum en hann vildi ekki tjá sig frekar um þær fyrirspurnir sem hann hefur verið að fá.
Athugasemdir
banner
banner
banner