lau 24. september 2022 11:50
Ívan Guðjón Baldursson
Marseille og Nice spila Evrópuleiki fyrir luktum dyrum
Juventus, Frankfurt og Köln refsað
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images

Næstu heimaleikir Marseille og Nice í Evrópukeppnum verða leiknir fyrir luktum dyrum eftir að stuðningsmannasveitir félaganna voru til vandræða.


Stuðningsmenn Marseille höguðu sér illa í 0-1 tapi gegn Eintracht Frankfurt á heimavelli í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. 

Þeir mega ekki fá áhorfendur á næsta heimaleik gegn Sporting og þá má aðeins lítill hluti áhorfenda mæta á síðasta heimaleik riðlakeppninnar sem er gegn Tottenham. Marseille er án stiga eftir tvær umferðir og útlit fyrir að félagið komist ekki upp úr riðlinum.

Stuðningsmenn Marseille gerðust meðal annars sekir um að kveikja á flugeldum, kasta aðskotahlutum inn á völlinn, beina laser pennum að leikmönnum og þá beittu þeir ofbeldi bæði innan og utan leikvangsins.

Stuðningsmenn Nice lentu í ryskingum við stuðningsmenn Kölnar sem kíktu í heimsókn í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar í byrjun mánaðar. Fresta þurfti upphafsflauti leiksins vegna slagsmálanna.

Nice verður með luktar dyr gegn Slovacko í næsta heimaleik og þá mega stuðningsmenn félagsins ekki ferðast á útileiki liðsins. Þeir mega ekki ferðast með eftir að hafa gerst sekir um að brjóta reglur varðandi flugelda, aðskotahluti, slagsmál og kynþáttafordóma á síðasta útileik. Þá var Köln einnig refsað og má félagið ekki selja miða á næstu tvo útileiki liðsins vegna hegðunar stuðningsmanna.

FK Partizan, Eintracht Frankfurt og Juventus hafa einnig fengið sektir og smávægilegar refsingar frá UEFA fyrir slæma hegðun stuðningsmanna í Evrópukeppnum.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner