Ég hef leitað lengi af leikmanni sem getur spilað alvöru vörn en komið inn á miðjuna þegar við erum með boltann
Ég tala um Gunnar og Matta í sömu andrá. þeir eru báðir algjörir liðsmenn, geta báðir spilað nokkrar stöður.
Það er spurning hvort við setjum upp gott prógram fyrir hann svo hann geti verið fljúgandi þegar undirbúningstímabilið byrjar
„Ég er helvíti góður, annað væri eitthvað skrítið," sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, eftir æfingu liðsins í kvöld.
Víkingar fögnuðu Íslandsmeistaratitli í dag, urðu sófameistarar þegar KR tók stig af Val sem er í 2. sæti deildarinnar.
Víkingar fögnuðu Íslandsmeistaratitli í dag, urðu sófameistarar þegar KR tók stig af Val sem er í 2. sæti deildarinnar.
„Dagurinn var mjög skemmtilegur. Við hittumst fyrir leikinn, borðuðum saman og horfðum á þennan skemmtilega leik milli Vals og KR. Ég hef sjaldan verið jafn stressaður horfandi á leik annarra liða."
„Það er örugglega gaman að vinna þetta á hinum og þessum völlum, en það er fyrst og fremst lang skemmtilegast að vera búinn að tryggja sér titilinn. Þetta var geggjuð stund þegar flautað var af, svo tókum við góðan fund og menn voru vel peppaðir á æfingunni. Auðvitað var létt yfir mönnum en þeir tóku samt hlutunum alvarlega af því það er stór leikur fyrir okkur á morgun."
Vilja drepa 'wannabe contenderana' í fæðingu
Víkingur mætir Breiðabliki á morgun á Kópavogsvelli. Leikir liðanna hafa verið umtöluðustu leikir sumarsins. Arnar talar um að menn hafi tekið hlutunum alvarlega á æfingunni. Skiptir máli að Breiðablik er andstæðingurinn á morgun, en ekki FH sem dæmi?
„Við töluðum mikið um að það væri hrikalega mikilvægt fyrir okkur að koma sterkir inn í þessa fjóra leiki sem eftir eru og nefndum ástæður. Við viljum senda tóninn fyrir næsta tímabil. Það eru nokkrir 'wannabe contenderar' á næsta ári sem ætla sér stóra hluti og við þurfum helst að reyna drepa það í fæðingu."
„Mér finnst líka upp á heilindi mótsins að við gefum okkur alla í þessa leiki sem eftir eru, svo það sé ekki hægt að kvarta yfir einu eða neinu varðandi að við höfum eitthvað slakað á og farið í frí."
Ari gæti hvílt út mótið
Eru einhverjir leikmenn sem munu ekki spila á morgun þar sem þeir eru tæpir?
„Ari (Sigurpálsson) fékk bakslag í síðasta leik. Hann mun klárlega missa af næstu leikjum. Það er spurning hvort við setjum upp gott prógram fyrir hann svo hann geti verið fljúgandi þegar undirbúningstímabilið byrjar. Það er mikilvægt að menn eigi gott undirbúningstímabil, það getur smitast inn í tímabilið sem fylgir í kjölfarið."
„Matti (Matthías Vilhjálmsson) verður væntanlega í hóp á morgun, veit ekki hvort hann nær að spila. En aðrir eru heilir, Gunnar er kominn aftur frá Færeyjum. Þannig við verðum með sterkt lið á morgun." Kona Gunnars er „kasólétt" að sögn Arnars og hefur hann verið hjá henni undanfarna daga.
Svífur um á bleiku skýi
Víkingur vann titilinn á Víkingsvellinum 2021 og núna voru allir saman inni í Víkingsheimili. Er mikill munur á þessu?
„Þetta er frábær tilfinning, en auðvitað er þetta öðruvísi. Þetta var mikil spenna i lok tímabilsins 2021, fyrsta lagi með KR leiknum fræga og svo lokaleikurinn gegn Leikni þar sem Víkin var troðfull. Það var ekki hægt að skrifa það handrit betur. Ég hugsaði í alvöru að það yrði leiðinlegra að verða sófameistari, en ég er búinn að svífa um á bleiku skýi síðan titillinn var tryggður. Ég mæli ekki á móti þessu."
„Við töluðum oft saman í vetur, öll þessi viðtöl og þróunin á liðinu og hvað væri að gerast," sagði Arnar og rifjaði upp aðdraganda mótsins. Hann var reglulegur viðmælandi eftir alls konar æfingaleiki í vetur. Í einu viðtalinu sagði hann að hann hefði gríðarlegar áhyggjur. „Í lok tímabilsins að standa svo uppi með báða titlana, á sannfærandi hátt, er gríðarlega gefandi. Þetta hefur verið draumi líkast þetta tímabil," sagði Arnar svo í kvöld.
Farið að venjast að vera með lið sem getur alltaf barist um titla
Halldór Smári Sigurðsson, leikmaður Víkings, var til viðtals í útvarpsþættinum í gær. Hann var spurður hvort það væri farið að venjast að vinna titla. Er það farið að venjast hjá Arnari?
„Það væri hrokafullt að segja að þetta væri farið að venjast. Tilfinningin að vera með lið sem getur barist um titla er farin að venjast, að vera alltaf í baráttunni í öllum keppnum, þá ertu að gefa þér meiri séns á að vinna titla. Það er vani og krafa sem fylgist hönd í hönd núna hjá okkur í Víkinni."
„Ég veit hversu erfitt, fyrst sem leikmaður og núna sem þjálfari, það er að vinna titil. Línan er þunn á milli og þess vegna er alltaf extra góð tilfinning að ná að landa þessu. Tilfinningin er með þeim betri sem hægt er að upplifa."
Lágmarkskrafan var Evrópusæti
Þegar tímabilið hófst í apríl, voruði með eitthvað lágmarksmarkmið sem hefði verið „í lagi að ná" annað en titillinn?
„Lágmarkskrafan er að komast í Evrópukeppni. Við stefnum, eins og fleiri lið, að fara inn í mótið og berjast um titla, en það er bara einn aðili útvalinn, og oftar en ekki eru það tveir; annað lið sem tekur bikarinn. Maður tekur þessu alls ekki sem sjálfsögðum hlut. Svo, þegar líður á tímabilið, bætast við ný markmið sama hvort þér gengur vel eða illa í byrjun. Í fyrra reyndum við alltaf að halda í einhverja stærðfræðilega von á að við gætum unnið titilinn."
„Þegar ferðalagið hefst þá ætlaru að vinna tvo titla og standa þig vel í Evrópu. Við unnum tvo titla og stóðum okkur alveg vel í Evrópu, en náðum ekki að komast áfram þrátt fyrir það."
Unnið fimm af síðustu sex titlum
Ertu farinn að horfa í hversu stórt þetta afrek er í sögulegu samhengi?
„Þetta er ekki alveg farið að síast inn. Maður ólst upp á Skaganum þegar liðið var að vinna undir stjórn Harðar Helga: tvöfalt bæði 1983 og 84. Manni fannst það alveg ótrúlegt afrek, og það er það, örugglega besta afrek í sögunni."
„Svo kom gullaldartímabilið með Gauja, þá vinnur ÍA marga titla. Það er ekki ósvipað og núna hér, á síðustu þremur árum hefur Víkingur unnið fimm af sex titlum mögulegum. Það er ótrúlegt."
„Líka miðað við hvernig samkeppnin er orðin. Öll félög eru farin að gefa svo mikið í, öll liðin eru farin að þrýsta hvert öðru upp á við, Blikarnir eru komnir í riðlakeppni en samt í 3. sæti í deildinni. Það segir manni hvað deildin er sterk."
„Ég held að íslenskur fótbolti sé á virkilega spennandi stað núna. Íslensk lið eru að mæta í þessa Evrópuleiki og eru farin að gefa liðum alvöru leik."
„Svo verður þetta bara ennþá meira spennandi á næsta ári. Valur átti gott tímabil, Stjarnan hefur verið að gera hrikalega öfluga hluti, FH er á uppleið og svo mun KA væntanlega ná vopnum sínum aftur."
„Það er virkilega erfitt að vinna leiki og hvað þá að vinna titil. Ég er virkilega þakklátur fyrir þetta."
Sjá einnig:
Grein um tvöfalda meistara sem gerð var árið 2021
Lengi leitað að þessum leikmanni
Gunnar Vatnhamar kom eins og stormsveipur inn í íslensku deildina. Hvað breyttist þegar Gunnar kom inn í hlutina rétt fyrir tímabil?
„Ég tala um Gunnar og Matta (sem kom líka í Víking fyrir tímabilið) í sömu andrá. þeir eru báðir algjörir liðsmenn, geta báðir spilað nokkrar stöður."
„Varðandi Gunnar þá hef ég leitað lengi af leikmanni sem getur spilað alvöru vörn en komið inn á miðjuna þegar við erum með boltann, sama hvort hann sé bakvörður eða miðvörður. Það gefur okkur svo mikið vægi, getum haldið okkar framherjum frammi, þessum fimm sóknarmönnum frammi."
„Það er kannski ólíkt því sem við gerðum þegar við unnum tvöfalt '21 með nákvæmlega sama kerfi. Við þurftum þá að fá bakvörðinn ofar og vorum ekki með þessa varnarmenn sem komu inn á miðjuna. Þótt að Atli Barkarson gerði ótrúlega vel á vinstri kantinum, þá er alltaf betra að hafa kantmenn í svoleiðis stöðu. Ég fíla það allavega."
„Með því að hafa góðan leikmenn sem skilur bæði hlutverkin; að verjast vel og koma inn á miðjuna. Það gefur okkur það vægi að vera með fimm sóknarleikmenn frammi. Það gerir það að verkum að við erum búnir að skora öll þessi mörk. Við erum búnir að skora 67 mörk þegar fjórir leikir eru eftir sem er ótrúleg tala."
Vilja setja met sem verði erfitt að slá
Það eru tólf stig í pottinum. Er Arnar að horfa í þau og að skora fullt af mörkum til að setja met sem verða ekki slegin svo glatt?
„Mér finnst ótrúlega sanngjarnt og mikilvægt að við mætum eins og menn í þessa fjóra leiki. Við viljum slá og bæta met. Blikar tóku 63 stig í fyrra, við viljum slá það met, eiga markametið og mörk fengin á okkur svo að það verði erfitt að slá þau met í framtíðinni. Fyrir alvöru íþróttamenn þá hlýtur það að vera ákveðin gulrót."
Breiðablik skoraði 66 mörk í fyrra og fékk á sig 27. Víkingur er kominn með 67 mörk skoruð og 22 fengin á sig.
Arnar kannski opnar eina flösku, en ekki leikmenn
Er einhver fögnuður núna í kvöld?
„Nei, það er bara fókus á leikinn á morgun. Það eru samt vonandi einhverjir Víkingar sem opna eina og eina kampavínsflösku í kvöld en ég get lofað því að enginn leikmaður gerir það. Það getur verið að ég opni eina, en leikmenn fá ekki að koma nálægt því. Þeir eru mjög einbeittir, þetta er þannig hópur."
„Ég fyrirgaf þeim eftir KR leikinn, það var mjög venjulegt , vorum dálítið 'off' í þeim leik en ég tek það ekki af KR að þeir voru mjög góðir. KR liðið er búið að vera mjög flott í þessari úrslitakeppni. Eftir bikarleikinn þá mátti slaka aðeins á og fá sér. En ekki í kvöld."
Blikar munu standa heiðursvörð - Engir óvinir fyrir utan völlinn
Býst Arnar við því að Blikar standi heiðursvörð á morgun?
„Ég held þetta séu það miklir íþróttamenn í Kópavoginn. Það er rígur og allt svoleiðis, en ég held samt að þegar lið vinna titla þá er bara tekist í hendur og óskað til hamingju."
„Svo er bara sagt í laumi: „Ég ætla að reyna vinna þig á næsta ári." Þannig á það bara að vera. Við erum engir óvinir fyrir utan völlinn, þó að margir vilji halda það. Ég veit að það verður heiðursvörður á morgun," sagði Arnar að lokum.
Stöðutaflan
L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 |
Athugasemdir