„Það er alltaf svo gaman að koma heim og fá að spila fyrir okkar áhorfendur. Ég er mjög spennt," segir landsliðskonan Karólína Lea Vilhjálmsdóttir í samtali við Fótbolta.net.
Stelpurnar spila á föstudaginn gegn Danmörku í Þjóðadeildinni og nokkrum dögum síðar mæta þær Þýskalandi. Þetta verða tveir gríðarlega erfiðir leikir.
Stelpurnar spila á föstudaginn gegn Danmörku í Þjóðadeildinni og nokkrum dögum síðar mæta þær Þýskalandi. Þetta verða tveir gríðarlega erfiðir leikir.
„Við erum ekki búnar að fara á fund um Danmörku núna en við vitum að þetta er gríðarlega sterkt lið. Við þurfum að vera allar tilbúnar til að ná í góð úrslit."
Þýskaland er lið sem þekkjum betur en við töpuðum stórt gegn þeim í Bochum í síðasta mánuði.
„Við ætlum að gera betur en í þeim leik. Það verður líka gríðarlega erfiður leikur, en við einbeitum okkur fyrst að Danmörku og sjáum hvernig sá leikur fer. Þetta eru leikirnir sem manni hlakkar til að spila. Það er mikil eftirvænting í liðinu og við vonum að það verði gott veður."
Er að spila frábærlega
Karólína Lea, sem er 22 ára gömul, er á láni hjá Bayer Leverkusen frá Bayern München.
Hún hefur verið að springa út eftir að hún fór á láni en hún er búin að vera einn besti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar á tímabilinu til þessa. Karólína hefur skorað fjögur mörk og lagt upp tvö í fimm deildarleikjum.
„Það er gott að fá traustið í byrjun tímabilsins. Við erum með gríaðrlega sterkan hóp og erum að spila skemmtilegan fótbolta. Ég er bara sátt," sagði Karólína.
„Ég veit hvað ég get. Ég fæ mikið af sendingum á mig og ég fíla það mjög mikið. Það er rosalega skemmtilegt að vera í liði þar sem er mikið hungur. Við erum ungt lið og ætlum að sýna okkur. Það er skemmtilegt að skora svona mikið. Ég er ekki rosalega mikill markaskorari. Því hefur þetta kannski verið smá sérstakt en við erum duglegar að koma okkur í færi og það er mjög gaman."
Hún segir lífið í Leverkusen skemmtilegt innan sem utan vallar.
„Ég elska lífið í Leverkusen. Mér líður rosalega vel og ég passa vel inn í liðið," segir Karólína en er hún í einhverjum samskiptum við þjálfara Bayern á meðan hún er á láni?
„Já, en voða litlum. Ég vil helst einbeita mér að Leverkusen (og landsliðinu) núna og ég vil ekki pæla í neinu öðru."
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.
Athugasemdir
























