Íslenski landsliðsmaðurinn Viðar Örn Kjartansson gæti verið á heimleið eftir sjö ára atvinnumannaferil en þetta kemur fram í hlaðvarpsþættinum Dr. Football í kvöld.
Viðar Örn, sem er 31 árs gamall, fór seint út í atvinnumennsku, en hann samdi við Vålerenga árið 2014 og skoraði þar 25 mörk í 29 leikjum. Hann hefur síðan þá spilað Jiangsu, Malmö FF, Maccabi Tel Aviv, Rostov, Hammarby, Rubin Kazan og Yeni áður en hann snéri aftur í Vålerenga.
Það er nú í umræðunni að Viðar gæti verið á leið heim en Hjörvar spáir því að hann stórbæti markametið í efstu deild ef hann ákveður að snúa heim.
„Ég heyrði að Viðar Örn Kjartansson væri mögulega til í að skoða að koma heim. Hann mun alltaf bæta þetta met, yfir 22 mörk, væri ég til í að setja bulk af peningum á það," sagði Hjörvar í Dr. Football.
„Hann er með tilboð víða, nettó 500-600 þúsund evrur hér og þar. Það þarf að selja hann og hann kostar eitthvað. Konan er flott heim en það eru einhverjir dílar á borðinu. Maður heyrði þetta í vikunni og ég hringdi í Viðar og var að fá viðbrögð við þessu."
„Hann fór að vitna í Laxness og sagði maðurinn finnur það sem maður leitar að og sá sem trúir á draug finnur draug. Hann fer oft í Laxness þegar hann veit ekki hvað hann á að segja."
„Hann myndi alltaf slá þetta met. Ég ætla að segja að hann myndi skora 30 mörk. Hann myndi fá sjö víti og skorar að lágmarki fimm til að vera pottþéttur. Þetta yrðu 23 til 27 marka maður með Breiðabliki," sagði hann í lokin.
Athugasemdir