mið 25. maí 2022 18:41
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Jón Daði gaf ekki kost á sér - „Þetta verkefni fellur mjög illa fyrir hann"
Jón Daði
Jón Daði
Mynd: Getty Images
Andri Lucas
Andri Lucas
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það vakti athygli í dag að Jón Daði Böðvarsson var ekki í 25 manna landsliðshópi sem kynntur var í dag. Landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson var spurður út í Jón Daða á fréttamannafundi í dag.

Jón Daði, hefur spilað mjög vel hjá Bolton, var erfitt að skilja hann eftir?

„Já, mjög. Ég átti gott samtal við hann. Hann kom inní verkefnið okkar í janúar og var búinn að eiga mjög erfiða nokkra mánuði. Það voru margir sem eðlilega spurðu þá hvers vegna verið var að velja hann. Það gaf honum fyrsta skrefið í það sem hann hefur verið að gera síðan. Hann er búinn að vera frábær hjá Bolton og þeir hjá félaginu elska hann. Jón Daði er búinn að vera frábær fyrir íslenska landsliðið."

„Ég hefði viljað hafa Jón Daða með en síðasti leikurinn hans var 30. apríl. Fyrsti leikurinn hjá landsliðinu er 2. júní og þarna á milli er heill mánuður. Hann þarf svo að byrja aftur að æfa um miðjan júní fyrir næsta tímabil."

„Þetta verkefni fellur mjög illa fyrir Jón Daða og maður þarf sem þjálfari að geta tekið því að leikmennirnir þurfa líka að kjósa sinn feril og sína fjölskyldu. Ég vona að Jón verði jafn ferskur á næsta tímabili og komi aftur í september,"
sagði Arnar.

Sjá einnig:
Gefur ekki reynslumikla menn upp á bátinn - „Hafa ekki sagst vera hættir"

„Viljum helst að allir leikmenn séu að spila allar mínútur"
Mikael Egill Ellertsson og Andri Lucas Guðjohnsen hafa ekki spilað mikið af meistaraflokksbolta að undanförnu. Mikael Egill hefur þó spilað með Primavera (vara- og unglingaliði) SPAL eftir að hann sneri til baka eftir meiðsli. Hefur Arnar áhyggjur af þeirra formi?

„Mikael Egill hefur verið að spila mjög mikið með Primavera liðinu og við erum búnir að sjá alla þá leiki. Hann er búinn að ná sér mjög vel eftir brotið í fætinum. Andri Lucas hefur ekki spilað mikið síðan í mars en þetta eru alltaf ákvarðanir sem við tökum."

„Við erum með þrjár mismunandi tegundir af senterum í hópnum. Við horfum í það. Við viljum helst að allir leikmenn séu að spila allar mínútur en það er því miður ekki alltaf raunin."


Framherjarnir, eða senterarnir sem Arnar talar um, eru þeir Andri Lucas, Sveinn Aron Guðjohnsen og Hólmbert Aron Friðjónsson.
Athugasemdir
banner
banner
banner