Nafnarnir Jamie Carragher og Jamie Redknapp eru fótboltasérfræðingar hjá Sky Sports og tjáðu sig um framtíð Aaron Ramsdale hjá Arsenal.
Enski markvörðurinn hefur verið mikilvægur fyrir Arsenal en núna er hann kominn með mikla samkeppni um byrjunarliðssætið frá hinum spænska David Raya.
Arsenal keypti Raya frá Brentford og virðist hann vera búinn að hirða byrjunarliðssætið af Ramsdale eftir flotta byrjun hjá sínu nýja félagi.
Ramsdale gæti reynt að berjast fyrir byrjunarliðssætinu en Carragher og Redknapp þykir ólíklegt að honum takist að endurheimta það.
„Ég held að hann vilji skipta um félag og það helst í janúar. Ef hann fær gott tækifæri til að skipta um félag þá mun hann eflaust nýta sér það," segir Carragher. „Hann hefur ekki staðið sig illa hjá Arsenal og í raun betur heldur en margir héldu. Arsenal getur eflaust fengið einhvern pening fyrir hann.
„Þú ert aldrei með tvo markmenn á sama gæðastigi í hóp, ekki nema að þeir séu báðir alltof lélegir. Ég hef aðdáun á Mikel Arteta fyrir að hafa hugrekkið til að taka þessa ákvörðun. Ramsdale gekk frá Leno og núna sé ég ekki leið til baka fyrir Ramsdale í byrjunarliðið.
„Raya er númer 1 og ef Ramsdale fær tækifæri til að skipta um félag í janúar þá mun hann gera það."
Raya er búinn að byrja síðustu þrjá leiki Arsenal í öllum keppnum en Arteta hefur sjálfur sagst vilja nota markverðina til skiptis eftir því hvaða eiginleikar henta betur hverju sinni. Hann vill hafa tvo markverði á svipuðu gæðastigi í baráttu um byrjunarliðssætið. Carragher og Redknapp gefa þó lítið fyrir þær hugmyndir.
„Eins og staðan er núna þá þarf hann að gera allt í sínu valdi til að endurheimta byrjunarliðssætið," segir Redknapp. „Þetta hefur gerst áður, Ramsdale bætti liðið þegar hann kom inn fyrir Bernd Leno og núna virðist það vera að gerast aftur með David Raya, sem er betri markvörður. Hann er rólegri og sýnir minna af tilfinningum.
„Mér líður eins og Ramsdale ætti ekki að fara í janúar. Hann ætti að vera eftir hjá félaginu og ef honum líst ekki á stöðuna næsta sumar þá getur hann farið."
Ramsdale er 25 ára gamall og Raya er 28 ára.