Man Utd vill Kane - Arsenal hefur áhuga á Yildiz - Villa vill kaupa Sancho
   fim 25. september 2025 10:56
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Venni: Stefni klárlega á að verða aðalþjálfari hjá liði í efstu deild
Lengjudeildin
Þróttur endaði í 3. sæti Lengjudeildarinnar í sumar.
Þróttur endaði í 3. sæti Lengjudeildarinnar í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
'Það er stefnan og ég er að vinna að því núna að Þróttur sé í þessum hóp'
'Það er stefnan og ég er að vinna að því núna að Þróttur sé í þessum hóp'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Venni þekkir til hjá FH þar sem hann klæddist þessum fína galla á hliðarlínunni.
Venni þekkir til hjá FH þar sem hann klæddist þessum fína galla á hliðarlínunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurvin Ólafsson, þjálfari Þróttar, hefur að undanförnu verið orðaður við félög í Bestu deildinni. Bæði FH og Valur hafa verið nefnd sem mögulegt næsta skref fyrir Sigurvin sem er yfirleitt kallaður Venni og verður kallaður það það sem eftir er greinar.

Venni var á sínum tíma leikmaður hjá FH, var svo í tveggja þjálfara teymi með Eiði Smára Guðjohnsen og var einn aðalþjálfari í lokaleikjum tímabilsins. Þá var hann í teymi með Heimi Guðjónssyni tímabilið 2023 áður en hann tók við Þrótti.

Hann var nálægt því að fara upp í Bestu deildina með Þrótti á þessu tímabili. Liðið fór í úrslitaleik við Þór um efsta sæti deildarinnar en tapaði þeim leik. Liðið tapaði svo gegn HK í undanúrslitum umspilsins.

Venni ræddi við Fótbolta.net í dag. Í þessum hluta viðtalsins fer hann yfir hvernig hann sér framtíðina, svo í seinni hlutanum gerir hann upp tímabilið.

„Eins og staðan er akkúrat núna er ég þjálfari Þróttar. Það er gaman að vera í Þrótti og mér líður vel í Þrótti, en maður veit aldrei hvernig hlutirnir þróast í þessum bransa," segir Venni sem er samningsbundinn Þrótti í eitt ár til viðbótar.

Er einhver möguleiki fyrir Þrótt að losa þig, eða þig að losna, ef það kemur eitthvað annað?

„Já, reyndar er það þannig, en það er enginn að skoða það held ég."

Hann var spurður út í slúðursögur síðustu daga.

„Ég hef orðið var við þetta orð á götunni, ég hef ekki heyrt í neinu liði. Þau eru líka ennþá bara á kafi í efstu deild, held að þau séu með nóg af öðrum hlutum að hugsa um."

Langar þig að fara upp og verða aðalþjálfari í efstu deild, hvort sem það er núna eða í framtíðinni?

„Alveg hiklaust. Ég klárlega stefni að því að verða aðalþjálfari hjá liði í efstu deild."

Hvernig líður þér með að vera orðaður við FH, sérðu fyrir þér að snúa þangað aftur?

„Enginn veit sína ævina. Auðvitað er hrós að vera orðaður við FH og Val, ég er í þessum þjálfarabransa og ég neita því ekki að það er gaman að vera orðaður við einhver störf hér og þar. Í grunninn líður mér þannig núna, og markmiðið er að Þróttur sé ekkert minna lið en þessi lið. Það er stefnan og ég er að vinna að því núna að Þróttur sé í þessum hópi."

Það heyrðist slúður að þú hefðir mögulega farið á fund með Val, er það ekki rétt?

„Nei, ég hef ekki talað við neitt lið," segir Venni.
Athugasemdir
banner