sun 26. janúar 2020 16:52
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Enski bikarinn: United skoraði sex mörk gegn Tranmere
Mynd: Getty Images
Tranmere Rovers 0 - 6 Manchester Utd
0-1 Harry Maguire ('10 )
0-2 Diogo Dalot ('13 )
0-3 Jesse Lingard ('16 )
0-4 Phil Jones ('41 )
0-5 Anthony Martial ('45 )
0-6 Mason Greenwood ('56 , víti)

Manchester United burstaði Tranmere Rovers í fjórðu umferð enska bikarsins. Eins og hjá Manchester City fyrr í dag var þetta aldrei spurning.

Tranmere byrjaði nokkuð vel, en það voru gestirnir sem tóku forystuna á tíundu mínútu leiksins. Harry Maguire, fyrirliði Man Utd, skoraði þá með skoti fyrir utan teig. Frábært mark hjá miðverðinum, hans fyrsta mark eftir 80 milljón punda félagaskiptin frá Leicester síðasta sumar.

Þá opnuðust flóðgáttirnar. Diogo Dalot skoraði sitt fyrsta mark fyrir Man Utd á 13. mínútu og skoraði Jesse Lingard á 16. mínútu. Staðan orðin 3-0 fyrir United.

Varnarmaðurinn Phil Jones skoraði fjórða mark Man Utd eftir hornspyrnu og gerði Anthony Martial fimmta markið fyrir leikhlé. Staðan 5-0 í hálfleik og sigurinn löngu kominn í höfn.

Ole Gunnar Solskjær fór að hugsa um að hvíla menn og tók Martial og Nemanja Matic af velli í hálfleik. Hann tók svo Maguire af velli snemma í seinni hálfleiknum.

Gestirnir frá Manchester skoruðu eitt mark í seinni hálfleiknum og kom það úr vítaspyrnu. Brotið var á Tahith Chong og vítaspyrna dæmd. Solskjær vildi að hinn 18 ára gamli Mason Greenwood færi á punktinn. Greenwood gerði það og skoraði, hans tíunda mark á tímabilinu.

Lokatölur 6-0 fyrir Manchester United sem er komið áfram í 16-liða úrslit bikarsins. Tranmere, C-deildarliðið, er úr leik.

Næsti leikur Man Utd er seinni leikur liðsins gegn Manchester City í undanúrslitum deildabikarsins á miðvikudag. Fyrri leikurinn endaði 3-1 fyrir City og hefur United því verk að vinna á Etihad-vellinum.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner