Bayern reynir aftur við Walker - Neves til Man Utd?
   mán 26. ágúst 2013 17:55
Elvar Geir Magnússon
Þórir Hákonar: Umræðan gengin alltof langt
„Aðalatriðið að horfa fram veginn"
Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ.
Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurður Ragnar Eyjólfsson.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir
Þóra Björg Helgadóttir.
Þóra Björg Helgadóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ, segir það ekki rétt að hann hafi beðið leikmenn landsliðsins að skrifa umtalað bréf sem sent var á Sigurð Ragnar Eyjólfsson sem lét nýlega af störfum sem þjálfari kvennalandsliðsins.

Eins og fram hefur komið sendu Sif Atladóttir, Þóra Björg Helgadóttir, Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir og Katrín Ómarsdóttir bréf á Sigurð þar sem þær lýstu yfir óánægju sinni. Mikið fjölmiðlafár hefur myndast í kjölfarið og ummælakerfi internetsins logað.

Var sagt af óánægju leikmanna
„Ég hef ekki verið í neinu sambandi við þessar stúlkur sem skrifuðu bréfið fyrir utan stutt sms-samskipti við eina þeirra. Hún sendi mér sms og ég svaraði „Ræðum saman á mánudaginn". Áður en ég náði að ræða við hana þá var þetta bréf komið til Sigga Ragga," segir Þórir.

Samningur Sigurðar rann út eftir Evrópumótið í Svíþjóð í sumar. Þórir fékk leyfi stjórnarinnar til að ræða við hann um framhaldið.

„Þá fékk ég símtal frá einum leikmanni landsliðsins sem segir mér að nokkrir aðrir leikmenn séu mjög ósáttir. Ég var ekki sáttur við það símtal og sagði að þessar stúlkur ættu að hafa beint samband við mig ef þær væru eitthvað ósáttar, ég myndi ekki taka við svona í gegnum annan aðila."

Engin hótun í þessu bréfi - Stormur í vatnsglasi
Þórir sagðist ekki hafa fengið neitt bréf sjálfur, tölvupóstur hafi verið skrifaður og stílaður á Sigurð og hann fengið afrit af honum.

„Í framhaldinu gerist svo það að ég og Sigurður ræddum saman en hann var efins þó það tengdist bréfinu ekki beint. Fyrir Evrópumótið hafði hann talað um að hann vildi klára mótið og skoða svo sína stöðu."

Viku síðar hafði íþróttafréttamaður á RÚV samband við Þóri og spurði út í þetta bréf.

„Ég svaraði honum og sagði að ég myndi ekki tjá mig um nein bréfaskipti. Nokkrum mínútum síðar sendir hann á mig tölvupóst og fullyrðir að hann viti um bréf frá leikmönnum og að í því bréfi hafi verið hótun um að þeir muni ekki spila áfram ef Sigurður haldi áfram sem þjálfari. Ég tók strax upp símann og sagðist ekki vilja hafa neitt eftir mér en sagði að því færi fjarri að í bréfinu væri einhver hótun heldur vangaveltur um framtíð liðsins," segir Þórir.

„Það hefur aldrei komið neitt frá KSÍ um að í þessu bréfi væri einhver hótun. Ég hefði persónulega komið þessum vangaveltum á framfæri á annan hátt en í þessu fólst engin hótun. Siggi Raggi hefur sjálfur sagt að þetta bréf hafi ekki haft nein áhrif á það hvort hann héldi áfram eða ekki."

„Þetta er stormur í vatnsglasi. Það sem gerist í framhaldinu hefur KSÍ ekkert með að gera. Það á ekki að gera neitt stórmál úr innihaldi bréfsins. Þetta eru vangaveltur um framtíð liðsins."

„Kolbeinn Tumi Daðason ákveður að skrifa þessa grein (í Fréttablaðinu) og rifjar upp atriði úr fortíðinni. Þetta er eitthvað sem hann sýður saman úr upplýsingum sem hann fær, þessar upplýsingar fær hann ekki hjá mér."

Edda Garðarsdóttir var í viðtali á Vísi þar sem hún kallaði Sigurð Ragnar heigul og sagði að KSÍ hafi beðið um bréfið en Þórir fullyrðir að hann hafi aldrei rætt við þessa leikmenn um þetta tiltekna mál áður en bréfið var skrifað, fyrir utan áðurgreind sms-skilaboð.

Ummæli Þóru óskiljanleg
Þóra Björg Helgadóttir sagði við 433.is í dag.: „Tilgangur KSÍ er mér gjörsamlega óljós og það er ljóst að það er ekki hagur kvennalandsliðsins."

„Hvað hún er að meina er mér algjörlega óskiljanlegt. Ég veit ekkert hvað hún er að fara með því. Öll þessi umræða sem hefur verið í gangi hefur ekkert komið í gegnum okkur. Ég get ekkert stjórnað því hvað blaðamenn skrifa, við höfum ekkert um það að segja. Ég veit ekkert hvernig menn höfðu vitneskju um þetta bréf eða hvernig einhverjir fjölmiðlamenn fengu það í sínar hendur" segir Þórir.

Lífið heldur áfram
Ekki er búið að ráða nýjan þjálfara fyrir kvennalandsliðið en leit stendur yfir.

„Lífið heldur áfram. Leitin að nýjum landsliðsþjálfara þokast áfram. Aðalatriðið núna er að fá þjálfara til taka við liðinu og horfa fram á veginn. Umræðan sem er núna er gengin allt of langt og ekkert meira um það að segja. Það sem er leiðinlegast við þetta er að leikmenn og starfslið sem tóku þátt í þessu verkefni í Svíþjóð hafa ekki fengið að njóta þess eins og skyldi vegna þessarar umræðu," segir Þórir Hákonarson.

Sjá einnig:
Siggi Raggi fékk póst frá leikmönnum sem vildu hann ekki áfram
Edda Garðars: Eins og það sé fasistastjórn í KSÍ
Edda Garðars: Eins og það sé fasistastjórn í KSÍ
Sif, Þóra, Ólína og Katrín Ómars skrifuðu bréfið
Edda Garðars: Lét reka afgreiðslukonuna
„Gæti aldrei átt síðasta orðið gegn konum í knattspyrnu.“
„Yfirlýsing frá Eddu: Harma að nafn mitt sé dregið í umræðuna
Þorvaldur Makan: Skora á þær að birta bréfið
Athugasemdir
banner
banner