Karólína Lea Vilhjálmsdóttir var að leysa öðruvísi hlutverk en hún er vön að gera þegar Ísland mætti Wales í Þjóðadeildinni síðasta föstudagskvöld.
Gegn Wales var hún að spila sem annar sóknarmaður við hlið Hlín Eiríksdóttur. Hún er vön að spila aðeins aftar á vellinum, annað hvort á kanti eða inn á miðsvæðinu. Hún var minna í boltanum en hún er vön gegn Wales.
„Ég tek öllum stöðum ef ég fæ að spila. Þetta er mikið hlaup án bolta. Ég fæ boltann ekki alltof mikið sem er ekki í uppáhaldi hjá mér, en maður tekur því fyrir liðið," sagði Karólína eftir leikinn gegn Wales.
„Ef ég er að hjálpa liðinu, þá tek ég því. Við hefðum getað haldið betur í boltann og ég hefði getað komið mér betur inn í leikinn. En við unnum leikinn og það er það sem skiptir máli."
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, talaði um hlutverk Karólínu í kerfinu gegn Wales á fréttamannafundi eftir leikinn.
„Þetta var bara fínt. Við vorum að leita að ákveðnum hlutum í leiknum og hún skilaði sínu. Hún var hrikalega dugleg og kom sér í góðar stöður stundum. Hún var að gera fína hluti inn á milli. Hún vann vel fyrir liðið og þetta var liðssigur."
Það er spurning hvort hlutverk Karólínu verði öðruvísi í dag en það má gera ráð fyrir því að liðið muni verjast mikið. Hún talaði sjálf um það á dögunum að íslenska liðið væri að fara í stríð í Bochum.
„Við erum bara að fara í stríð. Við erum mjög ólíkt lið. Þær eru með bestu leikmenn í heimi og við ætlum að vera með bestu liðsheild í heimi. Það er mjög mikil spenna fyrir leiknum," sagði Karólína við Fótbolta.net.
„Við þurfum að loka á þeirra styrkleika því þeir eru margir. Okkur líður vel að verjast. Við þurfum að fara inn sem leiðinlegasta lið í heimi og það mun bögga þær. Við þurfum að leggja leikinn upp með því að vera eins leiðinlegar og við getum."
Athugasemdir