Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 26. október 2020 10:26
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Logi Ólafs sýnir áhuga á að halda áfram: Hef hrifist með
Eiður Smári Guðjohnsen og Logi Ólafsson.
Eiður Smári Guðjohnsen og Logi Ólafsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Logi Ólafsson, þjálfari FH, var gestur í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977 á laugardaginn. Logi tók þjálfaramöppuna af hillunni þegar hann tók við FH í sumar og gerði samning út tímabilið.

Sögusagnir hafa verið í gangi um að Logi, sem er 65 ára, ætli að láta staðar numið eftir tímabilið en í þættinum var ljóst að hann hefur áhuga á að halda áfram.

„Minn er hugur er bara jákvæður eins og alltaf. Það verður bara tekin sú ákvörðun sem er best fyrir félagið. Það er ekki hægt að svara þessu öðruvísi en þannig að ekkert hefur verið ákveðið enn. Menn eru að velta fyrir sér hlutunum," segir Logi.

„Við höfum ákveðið það að klára þetta mót (áður en rætt verður um framhaldið). Það er engin ástæða til að ana að neinu og flýta sér. Menn eru að tala saman og það er ánægja með hvernig hefur gengið en það verður að hugsa til framtíðar."

Langar þig að vera áfram?

„Mér hefur þótt þetta rosalega gaman. Ég var ekki að sækjast eftir neinni þjálfun þegar þetta kemur upp. Ég hef bara hrifist með. Það er gaman að vera í kringum þetta og taka þátt í þessu. Þetta byggist allt á samtölum. Það hefur ekkert verið ákveðið enn," segir Logi.

Sögusagnir hafa verið í gangi um að Davíð Þór Viðarsson verði við hlið Eiðs Smára Guðjohnsen á næsta tímabili.

Eiður gríðarlega efnilegur þjálfari
Logi og Eiður voru ráðnir í sumar þegar Ólafur Kristjánsson hélt erlendis og árangurinn hefur verið góður hjá Hafnarfjarðarliðinu. Logi segir að samstarfið milli síns og Eiðs sé þægilegt og gott.

„Það hefur alltaf farið vel á með okkur og getum starfað saman án þess að tala of mikið saman. Við horfum á hvorn annan og erum að hugsa það sama. Það hefur gengið rosalega vel. Úrslitin hafa svo fylgt okkur," segir Logi.

Upphaflega var Logi Ólafsson ráðinn sem aðalþjálfari en hann hefur gefið Eiði Smára mikið vægi og ávallt talað um þá tvo saman.

„Ég sagði það strax í upphafi að í samstarfi við mig myndi hann fá að njóta sín. Ég tók það skýrt fram að ég væri ekki að fara að kenna honum neitt, Eiður Smári Guðjohnsen kann þetta. Hann fær þarna tækifæri til að æfa sig, með stuðningi. Ég hef mínar hugmyndir og við ræðum þær. Ábyrgðin hefur verið algjörlega á okkur báðum," segir Logi en Eiður hefur verið meira áberandi í viðtölum kringum leiki.

„Ég er búinn að svara þessari spurningu 'Hver eru þín fyrstu viðbrögð?' í 36 ár. Mér finnst mjög eðlilegt að menn vilji frekar tala við hann og þess fyrir utan vil ég það sjálfur að hann tali. Eiður er gríðarlega efnilegur þjálfari, það er ekki nokkur vafi á því. Það er enginn með slíka sögu sem leikmaður og ég tel að Eiður eigi bjarta framtíð sem þjálfari."

Logi segir að einn helsti styrkleiki Eiðs sé samskiptahæfni við hópa.

„Hann var fyrirliði landsliðsins. Hvernig hann talar við fólk, talar á æfingum og tjáir sig í klefanum. Ég var aldrei í vafa um hann, hann hefur þetta. Spurningin er bara varðandi tækifærið sem hann fær," segir Logi.

Feginn að búið sé að eyða ákveðinni óvissu
FH er í öðru sæti Pepsi Max-deildarinnar, í Evrópusæti, og er einnig í undanúrslitum bikarsins. Stefnan er að klára deildina núna í komandi mánuði en vegna Covid-faraldursins er stopp á mótinu.

Logi segir að það sé gott að búið sé að taka ákvörðunina um að reyna að klára mótið en viðurkennir að hafa sjálfur verið á þeirri skoðun að best væri að slaufa mótinu.

„Ég var þeirrar skoðunar að það ætti að spila leik Stjörnunnar og KR, svo allir væru með átján leiki, og segja svo takk fyrir okkur. Þetta skiptir félögin gríðarlega miklu máli því það þarf að framlengja samninga við menn og þetta getur kostað fullt af peningum," segir Logi.

„Svo kemur ýmislegt annað inn í þetta eins og engir áhorfendur og engar tekjur. Á móti er verið að forðast einhver málaferli, þar sem þetta hefur vertið gert (mótinu hætt) í Evrópu logar allt í deilum og málaferlum."

„Ég er býsna feginn að búið sé að taka ákvörðun um að klára þetta og eyða ákveðinni óvissu. Það eru engu að síður óvissuþættir framundan, eins og til dæmis hvað gerist ef eitt lið verður sent í sóttkví," segir Logi en hægt er að hlusta á útvarpsþáttinn í spilaranum hér að neðan.
Útvarpsþátturinn - Íslenski boltinn og Logi Ólafs
Athugasemdir
banner
banner
banner