Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
   sun 26. nóvember 2023 16:06
Brynjar Ingi Erluson
England: Þrjú mörk dæmd af Son í tapi Tottenham gegn Aston Villa
Heung Min-Son skoraði þrennu en öll mörkin voru dæmd af vegna rangstöðu
Heung Min-Son skoraði þrennu en öll mörkin voru dæmd af vegna rangstöðu
Mynd: EPA
Ollie Watkins var hetja Villa
Ollie Watkins var hetja Villa
Mynd: Getty Images
Lærisveinar Ange Postecoglou töpuðu þriðja leiknum í röð
Lærisveinar Ange Postecoglou töpuðu þriðja leiknum í röð
Mynd: Getty Images
Tottenham 1 - 2 Aston Villa
1-0 Giovani Lo Celso ('22 )
1-1 Pau Torres ('45 )
1-2 Ollie Watkins ('61 )

Aston Villa lagði Tottenham að velli, 2-1, á Tottenham Hotspur-leikvanginum í þrettándu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.

Tottenham var með öll tök á fyrri hálfleiknum. Dejan Kulusevski átti skot í stöng og þá varði Emiliano Martínez frá Bryan Gil stuttu síðar.

Eina sem vantaði hjá Tottenham var markið og kom það fyrir rest en Giovani Lo Celso gerði það með föstu skoti eftir fyrirgjöf Pedro Porro og heimamenn með verðskuldaða forystu.

Tveimur mínútum síðar skoraði Ollie Watkins laglegt mark sem var dæmt af vegna rangstöðu. VAR tók sér tíma að komast að niðurstöðu en hann virtist rétt fyrir innan.

Rodrigo Bentancur fékk tækifærið í byrjunarliðinu en gat ekki klárað fyrri hálfleikinn eftir ljóta tæklingu frá Matty Cash og kom Pierre-Emile Höjberg inn í hans stað.

Heung-Min Son taldi sig hafa komið Tottenham í forystu á 44. mínútu leiksins eftir frábæra sókn heimamanna, en hann var rétt fyrir innan og markið dæmt af.

Aston Villa jafnaði metin seint í uppbótartíma fyrri hálfleiks er Pau Torres stangaði aukaspyrnu Douglas Luiz í netið. VAR skoðaði mögulega rangstöðu, en markið dæmt gott og gilt.

Síðari hálfleikurinn byrjaði eins og fyrri. Tottenham sótti og skapaði sér færi og Villa svaraði með nokkrum færum á hinum enda vallarins.

Son kom boltanum í netið í annað sinn í leiknum en aftur dæmdur rangstæður. Tveimur mínútum síðar kom Watkins gestunum í 2-1 eftir gott spil á milli hans og Youri Tielemans, sem Watkins kláraði síðan með góðu skoti.

Martínez varði frábærlega í tvígang þegar tuttugu mínútur voru eftir. Fyrst af stuttu færi frá Brennan Johnson og síðan langskot frá Kulusevski. Mögnuð frammistaða hjá Argentínumanninum í dag.

Þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma setti Son boltann í markið og þriðja sinn í leiknum, en aftur var hann dæmdur rangstæður.

Heppnin ekki með Suður-Kóreumanninum í dag. Aston Villa hafði sigur, 2-1 og fer því upp í 4. sæti deildarinnar með 28 stig á meðan Tottenham er í fimmta sæti með 26 stig. Þetta var þriðja tap Tottenham í röð.
Athugasemdir
banner