Argentínumaðurinn Marcelo Bielsa fór í viðræður við Everton um stjórastarfið hjá félaginu sem er núna laust eftir að Frank Lampard var rekinn.
Bielsa er einstakur stjóri og fer sínar eigin leiðir. Hann tekur ekki við starfinu en hann og félagið voru ekki sammála um það hvernig hlutirnir ættu að vera.
Enskir fjölmiðlar segja frá því að Bielsa hafi verið hikandi við það að stíga inn á miðju tímabili og hann hafi verið með mjög sérstaka ósk í viðræðunum.
Bielsa var tilbúinn að taka við Everton næsta sumar en hann bauðst víst til að taka við U21 liði félagsins fyrst um sinn. Bielsa lagði til að bráðabirgðastjóri myndi stýra aðalliðinu út leiktíðina og svo myndi hann taka við.
Hann telur aðalliðshóp Everton ekki henta sínum leikstíl né aðferðum og taldi það henta best ef hann myndi byrja á að vinna með akademíu félagsins þar sem engin pressa væri á úrslit. Hann taldi þetta ekki góðan tímapunkt til þess að byrja að vinna með aðalliði félagsins þar sem margir leikir eru framundan og ekki mikið svigrúm til þess að byrja að vinna með nýjar aðferðir.
Everton er í mikilli fallbaráttu en það er búist við því að Sean Dyche, fyrrum stjóri Burnley, sé að taka við liðinu.
Athugasemdir