Joao Pedro í forgangi hjá Liverpool - Man Utd setur verðmiða á Rashford - Real Madrid missir vonina gagnvart Davies
   þri 27. febrúar 2024 05:55
Ívan Guðjón Baldursson
Evrópa í dag - Efstudeildaslagir í undanúrslitum og 8-liða
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Það er ekki sérlega mikið um að vera í Evrópuboltanum í kvöld en þó eru tveir spennandi efstudeildaslagir á dagskrá í spænska bikarnum annars vegar og franska bikarnum hins vegar.

Á Spáni er það Real Sociedad sem tekur á móti Mallorca í undanúrslitaleik, en það eru 16 stig sem skilja þessi lið að í spænsku deildinni. Sociedad er þar í harðri baráttu um Evrópusæti á meðan Mallorca er sex stigum fyrir ofan fallsæti.

Fyrri leik liðanna lauk með markalausu jafntefli í Mallorca og því fær Sociedad tækifæri á heimavelli í kvöld, en til gamans má geta að liðin mættust einnig í spænska bikarnum í fyrra og þá hafði Sociedad betur 1-0.

Þegar innbyrðisviðureignir liðanna eru skoðaðar kemur í ljós að Sociedad hefur unnið átta af síðustu tíu viðureignum þessara liða, en hinum tveimur lauk með jafntefli. Í þessum tíu leikjum hefur Mallorca einungis tekist að skora tvö mörk.

Þetta er í þriðja sinn sem liðin mætast í febrúar, eftir markalausa jafnteflið í fyrri viðureign bikarsins og innbyrðisviðureign í spænsku deildinni, þar sem Sociedad bar sigur úr býtum í Mallorca.

Í Frakklandi á Lyon heimaleik gegn Strasbourg í 8-liða úrslitum, en þessi lið mættust síðast í bikarnum fyrir fimm árum síðan. Síðan þá hafa þau mæst á hverju tímabili í frönsku deildinni og hafa liðin skipst á að vinna innbyrðisviðureignirnar síðustu misserin.

Lyon hefur verið að ranka við sér eftir hörmulega byrjun á tímabilinu og er stórveldið búið að vinna fimm leiki í röð í öllum keppnum eftir að hafa verið í fallbaráttu á fyrri hluta tímabils.
Athugasemdir
banner
banner
banner