Keflavík er komið í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins eftir að hafa unnið Þór/KA, 2-0, á HS Orku-vellinum í dag.
Það var lítið um afgerandi færi í fyrri hálfleiknum. Liðin skiptust á að taka stjórnina en engin mörk þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks.
Gestirnir komust nálægt því að taka forystuna á 57. mínútu er Hulda Björg Hannesdóttir kom sér í algert dauðafæri eftir hornspyrnu Ísfoldar Marý Sigtryggsdóttur, en hún klúðraði færinu á einhvern ævintýralegan hátt.
Keflvíkingar refsuðu mínútu síðar. Linli Tu fann Söndru Voitane í teignum. Hún fékk frítt skot og nýtti það örugglega.
Madison Elise Wolfbauer gerði út um leikinn á 77. mínútu. Voitane átti sendingu á Linli Tu sem reyndi skotið en það breyttist hratt í góða sendingu á Madison sem potaði boltanum yfir línuna.
Góður sigur Keflvíkingar staðreynd og liðið komið í 8-liða úrslit bikarsins.
Athugasemdir