Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 27. júlí 2021 08:30
Innkastið
„Hrein sturlun að þetta séu úrslitin" - Ótrúlegir yfirburðir á öllum sviðum
Höskuldur Gunnlaugsson í leiknum í Keflavík.
Höskuldur Gunnlaugsson í leiknum í Keflavík.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Keflavík vann Breiðablik 2-0 í Pepsi Max-deildinni á sunnudag en þetta var í annað sinn á tímabilinu sem Keflvíkingar leggja Blika, sömu úrslit urðu þegar liðin áttust við í Mjólkurbikarnum.

Úrslit leiksins eru hreinlega ótrúleg þegar tölfræði leiksins er skoðuð, Breiðablik var með xG upp á 3,63 en Keflavík 0,90. Þá var Kópavogsliðið 66% leiktímans með boltann.

„Það er hrein sturlun að þetta séu úrslitin þegar öll önnur tölfræði en mörk skoruð er skoðuð," segir Elvar Geir Magnússon í Innkastinu.

„Mér leið eins og Blikar hefðu getað spilað til miðnættis án þess að skora. Óskar kemur í viðtal eftir leik og talar um að þetta sé partur af ferlinu og eitthvað. Getur þú verið ósáttur sem þjálfari eftir leik, því yfirburðirnir eru ótrúlegir á öllum sviðum," segir Gunnar Birgisson. „Siggi Raggi sagði eftir leik að Blikar mættu alveg vera með boltann, hvaða skilaboð eru það?"

„Þetta er ein þreyttasta klisjan í fótboltanum. Að þú viljir ekki vera með fótbolta í fótboltaleik. Það er ótrúlega svekkjandi fyrir Breiðablik að vera með alla þessa yfirburði en labba af velli með 2-0 tapá bakinu," segir Ingólfur Sigurðsson.

Thomas Mikkelsen fór illa með fjölmörg færi fyrir Breiðablik og átti vondan dag. Hann fékk gagnrýni frá stuðningsmönnum Blika.

„Hann brenndi af fjölmörgum færum og maður veltir fyrir sér stöðu hans í Kópavoginum. Hann hefur verið orðaður við brottför og talað um að hann nýtist ekki alveg í uppleggi þjálfarana og leikstíl liðsins. Kannski upplifir hann sjálfan sig í viðkvæmri stöðu," segir Ingólfur.

Í Innkastinu er rætt nánar um þennan leik, fyrra mark Keflavíkur sem var algjör gjöf frá Breiðabliki og ýmislegt fleira.
Innkastið - KR lék sér að bráðinni og ótrúleg úrslit suður með sjó
Athugasemdir
banner