Brasilíski sóknarmaðurinn Igor Thiago verður að öllum líkindum frá næstu mánuði eftir að hafa meiðst á hné í æfingaleik gegn Wimbledon á fimmtudag. Þetta gæti haft veruleg áhrif á framtíð Ivan Toney hjá félaginu.
Brentford gekk frá kaupum á Thiago frá Club Brugge í febrúar en hann kláraði tímabilið í Belgíu og mætti síðan til Brentford í sumarglugganum.
Á fimmtudag meiddist Thiago á hné gegn Wimbledon og óttast Brentford að hann verði frá næstu vikur og mánuði.
Þetta þýðir að Brentford mun þurfa á enska sóknarmanninum Ivan Toney að halda í byrjun tímabilsins, en Toney hefur undanfarna mánuði verið að hugsa sér til hreyfings.
Toney verður samningslaus á næsta ári en Arsenal og Chelsea eru meðal þeirra félaga sem hafa verið að skoða hann. Þau hafa þó bæði valið það að sækja yngri leikmenn í glugganum, en ætla áfram að hafa auga með Toney.
Mörg félög vilja fá hann en líst betur á að sækja hann á frjálsri sölu næsta sumar í stað þess að borga allt að 70 milljónir punda fyrir leikmann sem á ár eftir af samningi.
Athugasemdir


