Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 27. október 2022 09:09
Elvar Geir Magnússon
Af hverju VAR mark Tottenham dæmt af? - Rétt samkvæmt reglubókinni
Kane var dæmdur rangstæður í þessu tilfelli.
Kane var dæmdur rangstæður í þessu tilfelli.
Mynd: Skjáskot
Eric Dier taldi að leika þyrfti boltanum 'fram' völlinn til að hægt væri að dæma rangstöðu.
Eric Dier taldi að leika þyrfti boltanum 'fram' völlinn til að hægt væri að dæma rangstöðu.
Mynd: EPA
Antonio Conte trylltist þegar hollensku VAR dómararnir dæmdu sigurmark Tottenham gegn Sporting Lissabon í Meistaradeildinni í gær ógilt. Markið kom í uppbótartíma en með sigri hefðu Spurs tryggt sér sæti í útsláttarkeppninni.

Niðurstaðan hinsvegar 1-1 jafntefli og það ræðst í lokaumferðinni í næstu viku hvort Tottenham komist áfram.

Emerson Royal skallaði fyrirgjöf Perisic í varnarmann og til Kane sem skoraði. VAR dæmdi markið ógilt þar sem varnarmaðurinn spilar boltanum óviljandi og er það því metið sem svo að Emerson sendir boltann á Kane, sem var rangstæður. Vinstra hnéð á Kane var rétt fyrir innan og markið dæmt af.

Í knattspyrnulögunum segir að leikmaður sé í rangstöðu ef einhver hluti höfuðs hans, búks eða fóta er nær marklínu mótherjanna en bæði boltinn og næst aftasti mótherji.

Öfugt við það sem Eric Dier og margir sparkspekingar halda þá segir ekkert í reglunum að það þurfi að leika boltanum 'fram' völlinn til að leikmaður geti verið rangstæður.

Hné Kane var fyrir framan boltann þegar Emerson skallaði boltann til hliðar á hann og þar með var dæmd rangstaða. Boltinn hrökk á endanum til hans af varnarmanni en í reglunum segir að það sé refsiverð rangstaða þegar leikmaður hefur „hagnað af stöðu sinni með því að leika boltanum eða trufla mótherja þegar boltinn hrekkur til hans af markstönginni, þverslánni, meðlim dómarateymisins, eða mótherja".

Það er sett í hendur dómarans að meta það hvort mótherji hafi spilað boltanum viljandi og í þessu tilfelli var niðurstaða hollenska teymisins sú að hann hafi gert það óviljandi.

Þegar rýnt er í reglubókina kemur því í ljós að hollenski dómarinn Danny Makkelie og hans menn höfðu rétt fyrir sér eftir langa VAR skoðun. En svo má auðvitað deila um það hvort fólk sé hlynnt því að reglurnar séu svona og hvort rétt sé að eyða svona löngum tíma í að skoða atriði sem eru ekki ljós í upphafi.

Eftir að Kane skoraði braust út gríðarlegur fögnuður á vellinum. En nokkrum mínútum síðar umbreyttist sá fögnuður í mikil vonbrigði og pirring.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner