„Mér fannst leikurinn í heild sinni vera góður. Þetta er mjög sterkt lið þetta danska lið og þær fengu ekki svo mörg færi. Við vorum þéttar sem mér fannst vera mikill munur frá því sem verið hefur. Mér fannst við gera mjög vel, sköpuðum okkur færi sem að hefur aðeins vantað uppá. Það var því mjög margt jákvætt en samt mjög svekkjandi að tapa þessu.“ Sagði landsliðskonan Agla María Albertsdóttir um leikinn eftir svekkjandi 1-0 tap Íslands gegn Danmörku á Laugardalsvelli fyrr í kvöld.
Lestu um leikinn: Ísland 0 - 1 Danmörk
íslenska liðið var ef eitthvað er sterkara liðið á vellinum í fyrri hálfleik og náði að velgja því danska vel undir uggum. Danir náðu vopnum sínum ögn í síðari hálfleik og herjuðu á Íslenska liðið sem náði ekki fyllilega að fylgja eftir virkilega góðum fyrri hálfleik í þeim síðari.
„Stundum er þetta bara svona í fótbolta tvískiptir hálfleikar. Við fengum samt sem áður færi í seinni hálfleiknum þótt þær hafi verið með yfirhöndina.“
Framundan er krefjandi verkefni þegar Þýskaland mætir á Laugardalsvöll næstkomandi þriðjudag. En liðin mættust ytra fyrir rétt um mánuði síðan þar sem Þjóðverjar höfðu 5-0 sigur. En frammistaðan í kvöld hlýtur þó að vera til marks um að liðið sé á réttri leið.
„Við verðum að reyna að byggja ofan á þessa frammistöðu. En það er er alltaf mjög svekkjandi að fá ekkert út úr því þótt þú sért að spila vel, Við verðum bara að skoða leikinn og sjá hvað við getum nýtt úr honum. Það þýðir ekkert annað en að vera bara jákvæðar og reyna að líta á það góða. “
Sagði Agla María en allt viðtalið við hana má sjá hér að ofan.
Athugasemdir

























