Bjarki Hauksson byrjaði í sínum fyrsta leik í efstu deild í gærdag er Stjarnan tryggði sér sæti í Evrópu eftir 2-3 tap gegn grönnum sínum í Breiðabliki.
Bjarki er fæddur árið 2006 og er hægri bakvörður en hann getur jafnframt spilað á kantinum. Í fyrra spilaði hann með KFG í 2. deildinni og skoraði þar sex mörk í 20 leikjum. Nú í sumar hefur hann verið viðloðandi meistaraflokkshópinn en aldrei komið við sögu.
Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, var spurður út í leikmanninn efnilega í viðtali eftir leik Stjörnunnar og Breiðabliks í gær.
Lestu um leikinn: Stjarnan 2 - 3 Breiðablik
„Hann er frábær og var frábær í dag. Hann fær galið verkefni upp í hendurnar: Í byrjunarliði í sínum fyrsta leik, sem er úrslitaleikur um Evrópusætið. Og hann gerði það eins og hann gerir. Hann á bara eftir að fara hærra, hann á allt hrós skilið.“
„Þó fyrr hefði verið, þú horfir á spilamennskuna hér í dag og það er hægt að setja spurningamerki hvers vegna hann spilaði ekki fyrr. Hlutirnir æxlast mismunandi fyrir alla, það verður gaman að halda áfram að vinna með honum,“ sagði Jökull.


