Heimir Guðjónsson var kynntur sem nýr þjálfari Fylkis í dag en margir Fylkismenn mættu á kynninguna. Hann skrifaði undir tveggja ára samning við félagið.
„Það er frábær mæting á þessa kynningu, Fylkismenn að fjölmenna sem sýnir að menn vilja gera hlutina vel. Ég er þakklátur fyrir það. Spennandi leikmannahópur og spennandi klúbbur," sagði Heimir.
„Síðasta tímabil voru vonbrigði. Það er mitt að sjá til þess að það gerist ekki aftur."
Ætlar þú að fara upp með Fylki á fyrsta ári?
„Það er allltaf þannig í næst efstu deild að það er verið að keppa um að falla eða komast upp. Auðvitað vill Fylkir vera í baráttu um að komast upp. Það sem við þurfum að hugsa fyrst er að búa til samkeppnishæft lið, búa til góða liðsheild og sjá hvert það leiðir okkur. Ef þú lítur yfir leikmannahópinn þá eru hæfileikarnir heldur betur til staðar," sagði Heimir.
Heimir gerir ekki ráð fyrir því að það verði miklar breytingar á leikmannahópnum.
„Það verða einhverjar breytingar en þegar ég leit yfir leikmannahópinn þá er grunnurinn góður og það er mikið af bæði góðum og efnilegum leikmönnum, við þurfum að virkja þá," sagði Heimir.
Hann heillaðist mikið af hugmyndafræði félagsins.
„Við erum búnir að eiga samtöl á undan. Meistaraflokksráð Fylkis hrifu mig strax þegar þeir fóru að kynna hugmyndirnar. Það kom skýrt fram á þeim fundi að þeir vissu strax hvert þeir vildu fara og hvernig þeir ætluðu að gera það og af hverju árangurinn náðist ekki í fyrra. Ég heillaðist af því," sagði Heimir.
„Hér eru forsendur til að byggja eitthvað upp og gera góða hluti. Ég leit svolítið í það. Ég er búinn að vinna fullt af titlum. Það er kominn tími til að hugsa öðruvísi og búa til eitthvað."
Athugasemdir






















