Forest hafnar öllum tilboðum í Anderson sem er á óskalista Man Utd - Tottenham vill fá Samu Aghehowa
   fim 27. nóvember 2025 08:30
Brynjar Ingi Erluson
Frank: Vitinha mun vinna Ballon d'Or á næsta ári
Thomas Frank
Thomas Frank
Mynd: EPA
Vitinha skoraði þrennu fyrir PSG
Vitinha skoraði þrennu fyrir PSG
Mynd: EPA
Thomas Frank, stjóri Tottenham á Englandi, var ánægður með frammistöðu sinna manna í 5-3 tapinu gegn Paris Saint-Germain í Meistaradeildinni í gær. Hann hrósaði sérstaklega sál og karakter liðsins, eitthvað sem hefur vantað síðan hann tók við.

Evrópumeistararnir þurftu að hafa fyrir hlutunum gegn Tottenham, en enska liðið komst tvisvar yfir í leiknum þökk sé þeim Richarlison og Randal Kolo Muani.

Frank sá margt gott í leik Tottenham og vonar hann að það verði hægt að byggja ofan á það.

„Ég er ótrúlega ánægður með frammistöðuna. Þetta sýndi samleik, hugrekki og áleitni liðsins.“

„Það var margt jákvætt. Framherjarnir tveir skoruðu þrjú mörk og allt liðið spilaði mjög vel. Planið var að fá eitthvað úr leiknum með þessari frammistöðu, en þá þurfa þessi smáatriði að falla með þér og við getum ekki verið að fá sum af þessum mörkum á okkur,“
sagði Frank.

Hann hrósaði þá portúgalska miðjumanninum Vitinha, sem hann sagði vera næsta handhafa Ballon d'Or verðlaunanna. Vitinha skoraði þrennu fyrir PSG í leiknum.

„Vitinha er besti miðjumaður heims. Hann verður næsti sigurvegari Ballon d'Or.“

Kolo Muani, sem er á láni hjá Tottenham frá PSG, skoraði tvö mörk gegn franska liðinu og var Frank ánægður með framherjann.

„Þetta gæti verið vendipunkturinn. Þessi tvö mörk munu gefa honum sjálfstraust. Hann hefur verið í smá basli með sjálfstraustið, en er farinn að líta betur og betur út með hverjum deginum.“

Er það áhyggjuefni að fá sig á fimm mörk?

„Auðvitað er það alltaf áhyggjuefni þegar við fáum fjögur eða fimm mörk á okkur, en þetta voru tveir ólíkir leikir. Þetta var svona meira það sem ég vil fá frá liðinu. Við veittum þeim samkeppni og þarna sá ég lið með sál og karakter sem er nákvæmlega sem við þurfum,“ sagði Frank í lokin.
Athugasemdir
banner
banner